Verður Pitt Pontíus Pílatus?

Bandaríski leikarinn Brad Pitt íhugar þessa dagana hvort hann eigi að taka að sér hlutverk eins frægasta illmennis mannkynssögunnar, Pontíusar Pílatusar, stjórnmálamannsins sem skipaði fyrir um krossfestingu Jesú Krists, í nýrri mynd sem Warner Bros kvikmyndaverið hyggst gera um manninn.

Það er Deadline vefsíðan sem greinir frá þessu.

Ýmsir mætir leikarar hafa brugðið sér í skikkju Pílatusar í gegnum tíðina. Hristo Shopov lék hann í mynd Mel Gibsons The Passion Of The Christ, og David Bowie gerði það sömuleiðis í mynd Martin Scorsese Last Temptation. Þá lék Telly Savalas, betur þekktur sem Kojak úr samnefndum sjónvarpsþáttum, Pílatus í The Greatest Story Ever Told. Þá lék Michael Palin Pílatus í Life of Brian.

Það er meira áhugavert við Pílatus en bara sú staðreynd að hann hafi verið dómari í réttarhöldum yfir Kristi, og dæmt hann til dauða, hann var einnig harðskeyttur hershöfðingi á tíma Tíberíusar keisara.

Pitt hefur nýlokið við uppvakninga-heimsendatryllinn World War Z, Twelve Years A Slave eftir Steve McQueen og The Counsellor eftir Ridley Scott.

Handritið skrifar Vera Blasi og fjallar það um Pílatus frá því hann er ungur og viðkvæmur sonur rómversks riddara, allt þar til hann verður ríkisstjóri í Júdeu og dæmir Krist til dauða.

Blasi sagði Deadline á síðasta ári að hún hafi eytt áratug í undirbúningsvinnu fyrir myndina og handritið sé um 80% staðreyndir og 20% skáldaleyfi.

Michael Palin í hlutverki Pílatusar í Life of Brian.