Wreck-It Ralph leiður á lífinu – Trailer og leikur

Glænýr trailer fyrir teiknimyndina Wreck-It Ralph er kominn út, og þú getur horft á hann hér að neðan.

Fyrir þá sem ekki kannast nú þegar við Wreck-It Ralph, þá fjallar myndin um tölvuleikjapersónuna Wreck-It Ralph, sem er orðinn hundleiður á því að vera sí og æ að gera nákvæmlega sömu hlutina, í hlutverki vonda kallsins í tölvuleiknum Fix-It Felix Jr.

Árum saman hefur Wreck-It Ralph verið að eyðileggja sömu bygginguna, dag eftir dag, og íbúarnir í byggingunni neita þráfaldlega að eyða nokkrum tíma með honum utan vinnunnar, en kjósa heldur að vera með aðal hetju leiksins, Fix-It Felix Jr.,

Það er John C. Reilly sem talar fyrir Wreck-It Ralph í myndinni og Jack McBrayer sem talar fyrir Fix-It Felix Jr.

Ralph ákveður að gera eitthvað í málunum og ákveður að flýja úr leiknum sínum og fara yfir í aðra leiki, eins og skotleikinn Hero´s Duty og kappakstursleikinn Sugar Rush, til að sjá  hvort hann geti orðið hetjan sem honum hefur alltaf langað til að verða. Á leiðinni kynnist hann Vanellope von Schweetz, sem Sarah Silverman talar fyrir, og uppgötvar að það er fleira slæmt í gangi í spilakassaheiminum, en lélegt sjálfsálit.

Myndin verður frumsýnd 2. nóvember nk. 

Smellið hér til að prófa að spila Fix-It Felix Jr. leikinn.