Yfirnáttúrleg stikla úr X-Files

Bandaríska sjónvarpsstöðin Fox hefur sent frá sent frá sér nýja stiklu úr þáttunum The X-Files sem snúa aftur á skjáinn á næsta ári. x-files

Þættirnir verða sex talsins og ljóst að það verða margir spenntir að sjá FBI-fulltrúana Mulder og Scully leysa yfirnáttúrulegar ráðgátur á nýjan leik.

Fox tilkynnti í sumar að fyrsti þátturinn yrði frumsýndur 25. janúar.

David Duchovny og Gillian Anderson endurtaka aðalhlutverk sín. Mitch Pileggi snýr einnig aftur sem yfirmaður þeirra, Walter Skinner, og William B. Davis, mætir aftur sem reykingamaðurinn.

Á meðal nýrra leikara verða Joel McHale, Rhys Darby úr Flight of the Conchords, Lauren Ambrose og Robbie Amell, samkvæmt NME.com.

Níu þáttaraðir af X-Files voru framleiddar á árunum 1993 til 2002 við miklar vinsældir og tvær kvikmyndir til viðbótar voru gerðar 1998 og 2008.