„Íslendingar dæma mig ekki“

Suður-afríska kvikmyndin Of Good Report var valin besta kvikmyndin á Africa International Film Festival sem fram fór í Calabar í Nígeríu. Hún hefur hlotið góða dóma og tekið þátt á fjölda kvikmyndahátíða nú þegar. Myndin hefur einnig verið umdeild og var meðal annars bönnuð í heimalandinu.

Myndin er nú í sýningum í Bíó Paradís og er leikstjórinn Jahmil X. T. Qubeka mættur til Íslands til þess að kynna myndina. Undirritaður settist niður með Jahmil og ræddi við hann um kvikmyndina, Suður-Afríku, Ísland og ævi leikstjórans.

ofgoodreport

Fjölskyldan og heimalandið

Jahmil ólst upp í Suður-Afríku við hræðilegar aðstæður, hann notaði kvikmyndir og skáldverk til þess flýja raunveruleikann. Jahmil segir frá því að hann hafi fyrst séð lík þegar hann var aðeins ellefu ára gamall. Þegar Jahmil er spurður út í fjölskyldu sína þá er sú saga enn sorglegri. Faðir hans drap konuna sína og bróðir hans gerði slíkt hið sama. Jahmil ólst upp við gríðarlegt ofbeldi á hendur konum og þylur upp flesta karlkyns fjölskyldumeðlimi sína sem ofbeldismenn.

Þó hæfileikar Jahmil séu miklir þá hefur hann ekki hlotið mikinn stuðning í heimalandinu fyrir verk sín. Of Good Report var bönnuð um tíma og var stimpluð sem barnaklám í Suður-Afríku. Í framhaldinu þurfti Jahmil að standa fyrir rétti sínum og á endanum var myndin „afbönnuð“ vegna þess að kvikmyndin sýnir enga hvatningu á brotavilja gegn börnum. Fólkið í heimalandinu finnur þó engu að síður aðrar ástæður til þess að mótmæla og hefur myndin verið gagnrýnd fyrir að niðurlægja svart fólk.

Of Good Report 

Kvikmyndin slær ekki á létta strengi og kemur inn á mjög viðkvæm mál. Maður að nafni Parker Sithole flytur í bæ og fær vinnu sem kennari. Kvöldið fyrir fyrsta almenna vinnudaginn sinn hittir hann stúlku á bar, á endanum fara þau heim saman og stunda kynlíf. Daginn eftir bregður honum í brún þegar hann sér að stúlkan er nemandi hans í 9. bekk í grunnskóla bæjarins. Árátta mannsins og skömmin blandast saman og verða að geðveikisgraut í hausnum á honum. Á endanum höndlar hann ekki álagið og grípur til örþrifaráða.

Jahmil skrifaði einnig handritið að myndinni og þegar ég spyr hann út í handritsskrifin þá setur hann fingurna saman, myndar ímyndaða jónu, sýgur inn og hlær svo. „Að öllu gríni slepptu þá er hið mannlega drifkrafturinn minn, okkar eðli og okkar gallar, hvaðan við komum og hver við erum, líkt og með þessa mynd. Hvað er bakvið grímuna? Hver erum við? Við erum ekki bara ferilskráin okkar, við erum svo miklu meira en það, við erum öll með grímur og mig langar að taka þær af.“

Kvikmyndin er gerð í svokölluðum „film noir“ stíl sem var vinsæll í Hollywood á árunum 1940-1950. Jahmil segist ekki vilja festa sig í neinu stílbragði og að næsta verkefni hans sé fjölskyldumynd og að hún verði allt öðruvísi heldur en Of Good Report.

Ætlar að flytja til Íslands

jahmil„Kvikmyndamiðstöð Íslands, Heather og Þórður dæmdu mig ekki, né það verk sem ég hafði skapað,“ segir Jahmil og á þá við Heather Milliard og Þórð Jónsson, sem með-framleiddu myndina undir merkjum Spier Films. Jahmil hverfur aftur að heimalandinu og segir að svartir kvikmyndagerðamenn eigi að fara eftir vissum reglum þegar þeir gera kvikmynd, og að þeir megi ekki undir neinum kringumstæðum sýna neinn sem er svartur á hörund í slæmu ljósi. „Þú situr kannski heima hjá þér hérna á Íslandi og horfir á kvikmynd, þá ertu ekki sífellt að dæma þá sem eru í kvikmyndinni. Hvort þeir séu svartir, hvítir, gulir, brúnir, hommar eða lesbíur. Það er það sem ég elska við Ísland, þið dæmið ekki.“

Jahmil er það hrifinn af Íslandi að hann ætlar að flytja hingað með konunni sinni, sem er menntaður læknir, og er hún einmitt þessa stundina að leita sér að vinnu hér á Íslandi í sínu fagi. Jahmil ætlar sér að gera kvikmynd á Íslandi í framtíðinni og er hann með nokkrar sögur í huga sem honum langar að mynda hérna. „Ég er ástfanginn af Íslandi, þegar ég kom hingað til þess að eftirvinna myndina þá fann ég það á íslensku fólki að þau eru ánægð í sínu eigin skinni, þeir sem eru þannig smita út frá sér góðri orku. Ég kann vel við andrúmsloftið hérna og hlakka til að búa á Íslandi.“