Heillaður af Súðavík

Það er ekki á hverjum degi sem vestfirsk kvikmynd eftir bandarískan kvikmyndagerðarmann kemur í bíó, en von er á einni slíkri í byrjun desember. Myndin heitir One Scene, og er gerð af Bandaríkjamanninum Gerrit Marks.

Gerrit býr í Maryland fylki í Bandaríkjunum en hefur að sögn Fjölnis Baldurssonar, samstarfsmanns hans, heillast af Íslandi og kemur hingað reglulega, síðast í september sl. „Mig grunar að hann sé búinn að finna sér konu hér á Vestfjörðunum,“ segir Fjölnir í samtali við Kvikmyndir.is

 

Fjölnir segir að myndin verði um 70 mínútur að lengd, en unnið er að því að hreinklippa myndina. Von er á stiklu úr myndinni eftir viku.

Aðspurður segir Fjölnir að hann og Gerrit standi að þessu saman. Gerrit hafi oft komið til Íslands sem ferðamaður í gegnum tíðina, en hafi heillast af Vestfjörðum og Súðavík og nágrenni þegar hann kom þangað og hafi viljað gera bíómynd sem gerðist þar. Fjölnir hafi átt vélar, Canon 60G myndavélar, og því hafi þeir skellt sér í kvikmyndagerðina. Fjölnir segist hafa verið á leið í kvikmyndaskóla þegar þessi kvikmynd kom óvænt upp á, þannig að hann hafi valið að taka frekar upp bíómynd, en að fara í skólann.

Tónlistarmyndbönd fyrir kántrýhljómsveitir

Fjölnir segir að Gerrit hafi mikla reynslu af því að skrifa handrit fyrir stuttmyndir og tónlistarmyndbönd, einkum fyrir kántrýhljómsveitir. Einnig hafi hann unnið þónokkuð í Frakklandi, enda sé hann af frönskum ættum. Gerrit býr í Bandaríkjunum að sögn Fjölnis, og rekur þar tvö fyrirtæki, ásamt því að starfa við kvikmyndagerð. „Við tókum myndina á þremur mánuðum, frá janúar sl. og fram í apríl,“ segir Fjölnir, en leikarar eru allir vestfirskir, að Gerrit undanskildum. „Við enduðum tökurnar á að fara á Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðina í apríl, en eitt stutt atriði í myndinni gerist þar.“

Fjölnir sjálfur hefur gert ýmis myndbönd í gegnum tíðina, og vinnur núna hjá Bæjarins besta á Ísafirði, eða BB.is þar sem hann framleiðir vefþætti.

Grínmynd með boðskap

Spurður um efni One Scene, þá segir Fjölnir að myndin sé nokkurskonar grínmynd. „Við erum líka að taka á hlutum sem margir sem búa á litlum stöðum úti á landi pæla í, að vilja vera meira en bara sveitavargur, að slá í gegn, gera eitthvað, skilja eitthvað eftir sig.

Aðalsöguhetjan, sem leikin er af Katrínu Líney Jónsdóttur kynnist þessum skrýtna erlenda manni, leiknum af Gerrit Marks, sem hún heldur að geti hjálpað sér að komast burt úr þorpinu, en hann er ekki allur þar sem hann er séður.“

20 mínútna bútur úr myndinni var frumsýndur á litlu tjaldi í Melrakkasetrinu í Súðavík, en þar gerist stærsta sena myndarinnar. „Fólk hló á réttu stöðunum, það var mikilvægt,“ segir Fjölnir. „Þetta er mannleg mynd með húmor.  Það er líka ein hasarsena með skothríð og látum, þegar þau heimsækja bóndabæ og lenda í veseni.  Það er eitthvað fyrir alla í þessari mynd.“

Fer á kvikmyndahátíðir í Bandaríkjunum

Eins og fyrr sagði verður myndin frumsýnd í byrjun desember á Ísafirði, en Fjölnir segir að verið sé að skoða með að sýna myndina í Bíó Paradís í Reykjavík einnig. „Svo er búið að ákveða að taka hana til sýningar á kvikmyndahátíðinni í Maryland í Bandaríkjunum, og tveimur öðrum hátíðum.“