Þessar unglingamyndir skaltu forðast á Netflix

Súrir tímar kalla á súrar dægrastyttingar. Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix hefur aukist stöðugt á undanförnum árum og virðist vera nóg framboð efnis sem hentar hverjum og einum. Því kemur það ekki á óvart hversu gífurlega gott hlaðborð er að finna af þáttaseríum og kvikmyndum miðuðum að unglingum og upp úr. Bíómyndir um angist fólks á mennta- eða háskólaaldri finnast víða, en öruggt er að fullyrða að gæði þeirra sveiflast títt í allar áttir.

Hér að neðan má finna lista yfir titla sem eru hver öðrum furðulegri – og ástæður fyrir því hvers vegna skal forðast þá að mati greinahöfundar.*

Þetta eru 10 súrar (unglinga)myndir sem þú finnur á (íslenska) Netflix

og hefur ekkert með að gera


Sierra Burgess is a Loser 

Sierra Burgess is a Loser er að öllum líkindum súrasta unglingamynd sem framleidd var af Hollywood síðastliðinn áratug almennt. Ein allversta aðalpersóna sem komið hefur úr smiðju Netflix „catfishar“ sæta strákinn í skólanum og hann verður ástfanginn af henni. Niðurstaðan er þessi: Ef þú ráðskast með fólk, lýgur að því og lærir ekki lexíu þína þá færðu allt sem þú vilt upp í hendurnar.

Glötuð.


Kissing Booth

Hvað ef Disney Channel myndir væru skrifaðar af 14 ára gagnfræðiskólanemum sem þættu Disney Channel myndir of pempíulegar og að það þyrfti að krydda þær aðeins meira (en þó með öllum klisjunum inniföldum)

Svar:  Þá væru fleiri en ein Kissing Booth, sem væru a.m.k. tveimur of margar.


Tall Girl 

 Plottið í Tall Girl er eftirfarandi: 

– Stelpa er hávaxin: Allir í skólanum segja oj

– Hávaxna stelpan setur á sig farða: Allir í skólanum segja vá

Það eru til góðar og skemmtilegar unglingamyndir sem eru með svipað úrelt gildi en Tall Girl er álíka sniðug og frumleg og „hvernig er veðrið þarna uppi“ brandarar (og jú, það kemur einn svoleiðis í myndinni).

En hvernig er veðrið?
Skýjað.


Aziz Ansari: Right Now

Aziz Ansari afmyndar afsökunarbeiðni sína fyrir „MeToo dæmið“ og breytir henni í leið til að gagnrýna „woke“ menninguna sem fór svo illa með hann, og leið til að græða smá pening aukalega. Yfirþyrmandi handbragð leikstjórans Spike Jonze ljáir myndinni einnig þvingaðan „náttúrulegan stíl“ sem lætur verkefnið í heildina virðast meira framleitt til að líta út fyrir að vera hreinskilið heldur en að vera það í raun.


You Get Me

Svona mynd sem maður vonar að verði gott rusl til að skemmta sér yfir en endar á að liðast hálf-þunglyndislega í gegnum afsláttar-Fatal Attraction sambandsdrama. Það er mikið sagt þegar Bella Thorne virðist vera sú eina sem skynjar í hvernig mynd hún er og lífgar upp á lélegheitin.


#RealityHigh

Hér er kvikmynd sem þykist vera meðvituð um samskipti nútíma unglinga en túlkar notkun samfélagsmiðla á álíka innihaldsríkan hátt og tveggja mínútna Buzzfeed myndband. Það hjálpar ekki heldur að hún fylgir hlýðin eftir söguminnum unglingamynda sem frumsýndar voru 30 árum fyrr. Ein af þessum myndum sem virðast úreltar sama dag og þær koma út.


Rip Tide

Rip Tide virkar furðuvel sem kynningarmyndband fyrir ástralska landslagið þannig ef þú ert fyrir þannig (eða sjálfspyntingar) og ákveður að setja þessa í gang í flippi, ýttu snöggvast á mute-hnappinn. 


Expelled

Að öllum líkindum versta hálf-endurgerð af Ferris Bueller’s Day Off sem hægt er að ímynda sér. Cameron Dallas hefði betur mátt halda sér við að leika í 6 sekúndur í senn á Vine heldur en að pynta áhorfendur Expelled í tæpar 90 mínútur.


The Ridiculous 6

Mynd sem tekst ekki að gera konseptið að Adam Sandler og Terry Crews séu bræður fyndið, á skilið sess á þessum lista. Ef það eru til súrari Sandler myndir en The Ridiculous 6 þá eru samt engar eins letilega gerðar. 


Swiped

Með fullri virðingu fyrir Noah Centineo þá virðist samsæriskenningin að Netflix sé með hann í einhverskonar gíslingu líkleg núorðið. Þeir hleypa honum bara út þrisvar á ári til að leika í verstu rómantísku gamanmyndunum sem þeir setja í framleiðslu og leyfa honum svo að vera í einni To All the Boys mynd sem laun annað hvort ár. Swiped hlýtur að vera sú alversta.

*Hörður Fannar Clausen