Þrjár spennandi en mjög ólíkar kvikmyndir koma í íslensk bíóhús þessa helgina.
Fyrsta ber að telja Beau is Afraid sem forsýnd var í samstarfi við Kvikmyndir.is á fimmtudaginn síðasta. Eins og Tómas Valgeirsson bíógagnrýnandi segir um myndina þá er hér um að ræða nýjasta „meinta martraðarfóðrið frá hinum margumtalaða Ari Aster, leikstjóra og handritshöfund Hereditary og Midsommar, nú með sína klikkuðustu, umdeildustu, undarlegustu og metnaðarfyllstu kvikmynd til þessa, hinn þriggja tíma langa og vægast sagt einkennilega dramagrínhrylling frá A24.“
Skiptast í fylkingar
Hann segir að myndin sé nú þegar farin að skipta gagnrýnendum og áhorfendum í fylkingar.
Joaquin Phoenix fer með aðalhlutverkið sem Beau. Hann missir annað foreldrið. Þegar hann er á leið til að hitta hitt foreldrið lendir hann í hindrunum sem aðeins leikstjóri eins og Aster getur látið sig dreyma um. Að öðru leyti hefur söguþræðinum verið haldið leyndum, en Nathan Lane og Patti LuPone leika einnig lykilhlutverk, með Armen Nahapetian í aukahlutverki sem Beau á táningsaldri.
Taugaveiklaður maður fer í súrrealíska ferð á heimaslóðir eftir að móðir hans deyr óvænt. Á leiðinni þarf hann að horfast í augu við sinn mesta ótta. ...
Löðursveittur í bíó
Þá vendum við okkar kvæði í kross og förum yfir í hreinræktaða illsku í kvikmyndinni Evil Dead Rise. Fulltrúi Kvikmyndir.is sá myndina á forsýningu í síðustu viku og var mjög ánægður. Sagði að þrátt fyrir hryllinginn væri góður húmor undirliggjandi en spennan væri slík að hann hafi ríghaldið í stólinn alla myndina og ekki áttað sig á því fyrr en undir lokin að hann var orðinn löðursveittur!
Evil Ded Rise er fimmta kvikmyndin í Evil Dead myndaflokknum og segir frá tveimur systrum sem reyna að bjarga fjölskyldunni frá djöfullegum skepnum.
Handritshöfundur og leikstjóri er Lee Cronin en aðdáendur seríunnar þurfa ekki að örvænta því leikstjóri fyrstu myndarinnar, Sam Raimi, er einn meðframleiðenda.
90% fersk
Myndin er 90% fersk á Rotten Tomatoes vefsíðunni og gagnrýnendur eru nær allir á einu máli um að þessi nýjasta afurð bjóði nær allt það sem aðdáendur vonast eftir á sama tíma og myndinni takist að koma með nýja vinkla og horfa fram á við.
Brengluð saga af tveimur systrum sem hafa ekki sést lengi en hittast á ný. Endurfundirnir verða snubbóttir þegar mannakjötsétandi djöflar birtast. Þær verða nú að berjast fyrir lífi sínu sem hefur nú breyst í sannkallaða martröð. ...
Síðast en ekki síst er mættur í bíó Magnús hinn magnaði, eða The Amazing Maurice eins og fjölskyldumyndin heitir á frummálinu.
Sneisafull af ærslum
Eins og breska blaðið The Guardian segir í umfjöllun um myndina þá er myndin sneisafull af ærslum og kjánaskap, frá upphafi til enda. Í ensku útgáfunni leika heimsfrægir leikarar en Hugh Laurie leikur Magnús sjálfan, lúmskan rauðan högna sem kann að bjarga sér á strætum borgarinnar. Hann setur upp fjárplógsstarfsemi í félagi við hóp af talandi rottum. Þegar Magnús og nagdýrin hitta bókaorminn Malicia þá fer litla svindlstarfsemin þeirra öll út um þúfur.
The Guardian segir að myndin búi yfir miklum þokka og færi kvikmyndunum indælustu rottu síðan kvikmyndin Ratatouille var frumsýnd.
Byggð á vinsælli bók
Kvikmyndin er byggð á skáldsögu breska rithöfundarins Terry Pratchett frá árinu 2001, The Amazing Maurice and His Educated Rodents.
Bókin er 28. bók Pratchett í seríu sem gengur undir nafninu Discworld en er jafnframt fyrsta bókin í bókaflokknum sem miðuð er að börnum.
Bókin þykir eitt besta verk höfundarins og vann m.a. til Carnegie Medal verðlaunanna, sem voru fyrstu verðlaunin sem Pratchett hlaut.
Magnús er rauður högni sem kann að bjarga sér á strætum borgarinnar. Hann setur upp fjárplógsstarfsemi í félagi við hóp af talandi rottum. Þegar Magnús og nagdýrin hitta bókaorminn Malicia þá fer litla svindlstarfsemin þeirra öll út um þúfur....