Teiknimyndin Villta vélmennið (e. The Wild Robot) hreppti efsta sæti aðsóknarlista íslenskra kvikmyndahúsa nú um helgina, á sinni annarri viku á lista, en áður var hún í öðru sætinu. Alls hafa 5.646 manns séð myndina frá frumsýningu.
Myndin hefur verið að spyrjast vel út enda fengið frábæra dóma. Hún er byggð á samnefndri bók eftir Peter Brown en samkvæmt höfundinum kom innblásturinn að Villta vélmenninu frá skissu sem hann gerði af vélmenni uppi í tré. Hann spurði svo spurningarinnar: „Hvað myndi gáfað vélmenni gera úti í óbyggðum?“
Í öðru sæti aðsóknarlistans lenti íslenska gamanmyndin Topp 10 Möst með 1.371 gest og eru þá Ljósvíkingar komnir í þriðja sætið (á sjöttu viku á lista) með tæplega 14 þúsund manna aðsókn.
Kvikmyndirnar We Live in Time, The Substance og My Hero Academia voru einnig frumsýndar um helgina og lentu í fimmta, sjöunda og tíunda sætinu.
Hér að neðan má sjá aðsóknarlista helgarinnar í heild sinni.