Ágætis C-mynd

Í stuttu máli er „The Meg“ ágætis C-mynd. Ef hún fyndi betra jafnvægi milli eðli umfjöllunarefnisins, leiks og hraða gæti hún talist eðal góð B-mynd en allt kemur fyrir ekki.

Titillinn vísar til tegundar af hákarli, s.k. Megalodon, sem talin er vera útdauð fyrir milljónum ára og var í stærri kantinum.

Rannsóknarteymi uppgötvar heilan heim af áður óþekktum sjávardýrum þegar köfunarbátur fer niður fyrir sjávarbotninn og lendir í klónum á risahákarli. Leitað er til björgunarmannsins Jonas Taylor (Jason Statham) til að bjarga áhöfninni en stóra ferlíkið finnur sér leið út á sama tíma og veldur miklum usla.

Hákarlar hafa oft verið umfjöllunarefni í hryllings- og spennumyndum og þessar myndir ná aldrei upp fyrir B-mynda „status“ sinn en meistarastykkið „Jaws“ (1975) kemst næst því. Framhöldin og fleiri myndir sem sóttu „innblástur“ til efniviðarins hafa í raun ávallt flokkast sem misgóðar B-myndir en áttu það sameiginlegt að fjalla um þessa drápsmaskínu náttúrunnar og þá sem lögðu í leiðangur til að deyða hana. Lítið hefur breyst annað en tilraunir til að hressa aðeins upp á skepnuna sjálfa með því að gefa henni eitthvað auka eins og t.d. í „Deep Blue Sea“ (1999) þar sem hákarlarnir voru gáfaðri og hraðskreiðari og því enn hættulegri. Undanfarin ár hafa hákarlar helst skotið upp kollinum í hinum undarlega „Sharknado“ myndabálki (2013 – ?) en þær myndir eru gjarnan settar í D-mynda flokkinn en þangað fara þær sem eru viljandi gerðar hallærislegar, gervilegar og þar fram eftir götunum og höfða því, eðli málsins samkvæmt, eingöngu til unnenda slæmra mynda. Þær eru líka nær undantekningarlaust mjög ódýrar í framleiðslu og það sést bersýnilega.

„The Meg“ býður upp á næsta þrepið í þróun hákarlsins sem verulegri ógn en nú er hann orðinn mun stærri. Þetta er ekki sökum mannlegra afskipta við sköpun náttúrunnar heldur er hér spólað til baka og gripið í skepnuna eins og hún var víst fyrir milljónum ára síðan. Hákarlar eins og við þekkjum þá í dag eru næstum bara hentug sem gæludýr í samanburði. Söguþráðurinn og efnistökin eru góður og gildur efniviður í D-mynd en myndin er einfaldlega of tæknilega vel unnin og slípuð til að falla nokkurn tímann í þann flokk og greinilegt að hér er á ferðinni metnaðarfull B-mynd. Þrátt fyrir efniviðinn er fundinn mannlegur þráður sem gefur aðalpersónunum dramatíska forsögu og hindranir til að yfirstíga, leikarahópurinn samanstendur af góðum leikurum í bland við minni spámenn, handritið flakkar á milli óþjálla lína sem leikararnir reyna  að koma frá sér án þess að springa úr hlátri og hádramatískra sena þar sem ófáir týna tölunni og hasarinn er mikill og vel framreiddur enda eðal tölvumenn að teikna risa hákarlinn.

„The Meg“ er samt frekar langdregin, leikararnir virðast ekki vera á sama máli hvernig eigi að nálgast efniviðinn og sumir hérna taka þessu of alvarlega á meðan aðrir gera það alls ekki og spennuatriðin flakka á milli kjánagangs og hreins alvarleika. Leikstjórarnir Steven Spielberg („Jaws“) og Renny Harlin („Deep Blue Sea“) höfðu á hreinu hvernig efnivið þeir voru með og héldu tóninum til streitu en Jon Turteltaub vill passa upp á að myndin leysist ekki upp í vitleysu en á sama tíma má enginn halda að verið sé að taka þessu of alvarlega. Til að ganga úr skugga um að unglingarnir geti farið án þess að þurfa á mömmu og pabba að halda er einnig dregið úr óhugnaðinum og „The Meg“ er furðu blóðlítil en slatti af subbulegum dauðdögum hefði án efa lyft myndinni töluvert (og mjög líklegt að óklippt útgáfa muni skjóta upp kollinum fljótlega) en gömlu B-myndirnar pössuðu upp á að hafa þetta vel blóðugt og svæsið.

Eftir stendur vel útlítandi C-mynd sem er alls ekki slæm en talsvert langt frá því að vera sú eðal heilalausa skemmtun sem hún ætlar sér. Statham er frábær skemmtikraftur í þessari tegund mynda og ætla má að fleiri svona séu á leiðinni með honum. Svo er vert að minnast á Ólaf Darra en hann kemst ágætlega frá sínu en þessi gæðaleikari á heima í betri myndum eða a.m.k. á hann að fá betra hlutverk í svona ræmum.