Algjör Sveppi enn vinsælastur á Íslandi

Fjórðu helgina í röð eru Sveppi og félagar vinsælastir meðal íslenskra bíógesta, en það stóð tæpara nú en áður. Tæplega 3.500 manns fóru á Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið, en það var aðeins um 500 fleiri en fóru á farsann Dinner for Schmucks, sem var frumsýndur á föstudaginn. Er Algjör Sveppi því komin í rétt tæpa 30.000 áhorfendur, sem er sjötta besta aðsókn af öllum myndum frumsýndum á þessu ári.

Í þriðja sæti var rómantíska heimsreisumyndin hennar Juliu Roberts, sem sumir þekkja betur sem litlu systur Erics Roberts, Eat Pray Love. Fóru rúmlega 2.400 manns á hana um helgina, sem var um 500 manns meira en aðsóknin á fjórðu vinsælustu myndina, Despicable Me, var. Sú mynd komst yfir 20.000 áhorfenda múrinn um helgina, en hún ásamt The Other Guys er öldungur topp 10-listans, í sinni fimmtu sýningarviku.

Piranha 3D fékk meiri tekjur en Wall Street: Money Never Sleeps, þrátt fyrir aðeins færri áhorfendur, og náði þar með fimmta sætinu, á meðan Going the Distance, Solomon Kane, Sumarlandið og The Other Guys skipuðu 7. til 10. sætið.

Næsta helgi verður heldur betur fjörug, þar sem heilar fjórar myndir verða frumsýndar, The Town, Takers, Inhale og Furry Vengeance, auk þess sem hin íslenska Brim mun eiga sína fyrstu heilu helgi, en hún var frumsýnd á RIFF á laugardaginn og fer í almennar sýningar í dag. Það sem merkilegra er, þrjár þessara mynda eru hreinræktaðar spennumyndir (The Town, Takers og Hollywood-frumraun Baltasars Kormáks, Inhale), og verður því áhugavert að sjá hver þeirra verður ofan á í slagnum. Hvernig spáið þið?

-E.G.E