Aníta Briem í sirkusatriðum

Íslenska leikkonan Aníta Briem heldur áfram að gera það gott í Hollywood en hún hefur leikið ýmis hlutverk í draumaborginni, þar á meðal í myndinni Journey To The Center of The Earth, ásamt Brendan Fraser.

Nýjasta mynd hennar heitir You, Me & The Circus og var frumsýnd í Bandaríkjunum í ágúst sl. Framleiðandi myndarinnar er Omar Epps, sem flestir ættu að þekkja úr sjónvarpsþáttunum House.

Sjáið stiklu úr myndinni hér að neðan:

Myndin er nútímaleg saga um sambönd kvenna og karla. Hún fjallar um fjórar manneskjur sem eru að hætta og byrja saman á víxl. Sagan er sögð eina kvöldstund þar sem menn tala tæpitungulaust, kafa inn á við, og uppgötva nýja hluti og falin leyndarmál koma upp á yfirborðið.
Sagan gerist í Los Angeles og tilfinningar persónanna eru túlkaðar í sirkusatriðum með loftfimleikamönnum, munúðarfullum dönsurum og flottum lögum.

You, Me & the Circus hefur verið vel tekið ef eitthvað er að marka einkunnir á imdb.com kvikmyndavefnum, en myndin fær þar 7,5 í einkunn, sem er meðaltal einkunna 22 notenda síðunnar.

Myndin er sjálfstæð framleiðsla og áætlaður kostnaður um ein milljón Bandaríkjadalir, að því er fram kemur á imdb.com