Assassin´s Creed kemur 15. maí, 2015

Frumsýningardagar nokkurra nýrra mynda hafa verið að fást staðfestir úti í Hollywood nú um helgina, og hér á eftir eru fréttir af nokkrum myndum sem hafa fengið útgefinn fastan frumsýningardag.

assassin´s creed

Nýjasta mynd Jason Reitman, Labor Day, verður frumsýnd á jóladag. Með aðalhlutverk í myndinni fara þau Kate Winslet, Josh Brolin, Tobey Maguire, Jacki Weaver, James Van Der Beek og Clark Gregg. Myndin fjallar um hina þunglyndu einstæðu móður Adele og son hennar Harry sem bjóða særðum og óttaslegnum manni far í bíl sínum. Í ljós kemur að lögreglan er á hælunum á honum, enda er hann á flótta eftir að hafa flúið úr fangelsi. Þau mæðgin fá að heyra sögu mannsins um leið og möguleikar þeirra verða sífellt takmarkaðri.

Þá hefur 20th Century Fox ákveðið frumsýningardag fyrir næstu mynd stórmyndaleikstjórans Ridley Scott, biblíumyndina Exodus, sem fjallar um Móses. Myndin verður frumsýnd þann 12. desember 2014.

Talað hefur verið um að Christian Bale muni leika aðalhlutverkið í Exodus, en það hefur ekki verið staðfest.

Áður en sú mynd verður sýnd er svo von á myndinni The Counselor frá Scott en sú mynd verður frumsýnd 15. nóvember nk. Með honum í þeirri mynd er á ný Michael Fassbender, en þeir tveir unnu saman að síðustu mynd Scott, Prometheus, sem tekin var upp á Íslandi, og var sýnd síðasta sumar.

Að lokum er það myndin Assassin´s Creed sem byggð er á samnefndum tölvuleik frá tölvuleikjafyrirtækinu Ubisoft, og við höfum sagt frá áður hér á síðunni.

Handrit myndarinnar er skrifað af Michael Lesslie og í aðalhlutverki eins og í The Counselor, er Michael Fassbender, sem leikur Desmond Miles, en Fassbender er einnig framleiðandi myndarinnar.

Frumsýningardagur hefur verið ákveðinn 15. maí 2015, en óvarlegt er að treysta þeirri dagsetningu 100%, enda settur tvö ár fram í tímann, og ýmislegt sem gæti gerst í millitíðinni.