Við höldum ótrauðir áfram með atriði vikunnar. Við fengum vægast sagt æðisgengnar undirtektir með atriðið í síðustu viku þegar við frumsýndum 2 mínútur úr Stóra planinu með honum Pétri Jóhanni í aðalhlutverki. Það er klárt mál að við munum halda áfram að frumsýna atriði úr væntanlegum íslenskum kvikmyndum!
Um leið og við kynnum til leiks atriðið úr Skýjahöllinni þá verða viss kaflaskipti í þessum dagskrárlið þar sem við erum núna með sér síðu þar sem hægt er að horfa á öll atriði vikunnar! Hægt er að finna síðuna hér, eða í valröndinni vinstra megin á síðunni. Einnig sýnum við nú í fyrsta sinn lítið intro sem mun prýða öll atriði vikunnar í framtíðinni.
En hvað verður til þess að þetta atriði varð fyrir valinu? Fyrir utan að það er bráðskemmtilegt og eftirminnilegt þá finnst mér svo gaman að sjá Sturlu Sighvatsson leika vandræðagemling, þveröfugt við hlutverkið hans sem Benjamín í Benjamín Dúfa. Hjörleifur Björnsson sem lék Andrés í Benjamín Dúfu sést líka í þessu atriði. Leikhæfileikarnir leyna sér ekki hjá þessum ungu piltum.
Ólíkt Benjamín Dúfu þá er aðeins ein aðalpersóna í Skýjahöllinni, leikin af Kára Gunnarssyni, og getur það aðeins talist þrekvirki hjá svona ungum leikara að halda uppi heillri kvikmynd. Enda hefur það sjaldan eða aldrei verið endurtekið í íslenskri kvikmynd. Hins vegar er ekki hægt að sejga annað en að hann standi sig vel í því.
Hér er semsagt atriðið þar sem Emil tekur fyrstu vaktina sína sem blaðbera. Athugum hvernig það gengur hjá honum:
Já lífið í borginni er ekki alltaf dans á rósum. En í næstu viku ætlum við að kíkja inn hjá Jónasi í kvikmyndinni Skilaboð til Söndru.
Atriði síðustu þrjár vikur: Stóra planið, Einkalíf, Perlur og svín, meira.

