Batman kemur við sögu í Man of Steel 2

Eftir að hafa um margra ára skeið bjargað heiminum á eigin vegum, þá munu Batman og Superman leiða saman hesta sína í Man of Steel 2. Henry Cavill leikur á ný Superman og Zack Snyder leikstýrir. Handritshöfundurinn David S. Goyer hefur einnig skrifað undir hjá Warner Bros, sem framleiðir myndina. Ekki hefur verið staðfest hver mun fara með hlutverk Batman.

superman-batman

Margar getgátur hafa verið á kreiki eftir að leikarinn Christian Bale sagði skilið við Batman og velta margir fyrir sér hver taki við af honum í Man of Steel 2. Bale hefur unnið hugi og hjörtu aðdáenda og horfa margir á hann sem hinn eina sanna Batman.

Batman og Superman eiga langa sögu í myndasöguheiminum og komu fyrst fram sem tvíeyki í myndasögunni Worlds Finest árið 1954. Þar voru þeir bestu félagar og unnu saman gegn glæpum. Árið 1986 leystist vinskapur þeirra upp þegar Frank Miller gaf út myndasöguna The Dark Knight, í þeirri sögu var bæði mikill pólítískur og heimspekilegur ágreiningur á milli þessara ofurhetja.

Man of Steel hefur gert það gott á heimsvísu og þénað 600 milljónir dala síðan hún var frumsýnd í júní. Framhaldsmyndin verður frumsýnd árið 2015.