Batman vs. Superman frestað til 2016

batmanvssupermanÞað eru eflaust margir sem bíða með mikilli eftirvæntingu eftir því að sjá Batman og Superman saman á hvíta tjaldinu. Zack Snyder rauf múrinn á Comic Con á seinasta ári með þeim fréttum að aðdáendur ættu von á myndinni árið 2015.

Nýjar fréttir leiða annað í ljós, því myndinni hefur verið frestað um 10 mánuði vegna þess að kvikmyndun og eftirvinnsla á myndinni þarf einfaldlega meiri tíma til þess að fullkomna sýn leikstjórans. Myndin mun því koma út þann 5. maí, 2016. Í staðinn fyrir 18. júlí 2015.

Þeir sem hafa fylgst með því sem er að gerast á bakvið tjöldið við gerð myndarinnar ættu ekki að láta þessar fréttir koma sér á óvart. Henry Cavill, Ben Affleck og Gal Gadot eru staðfest í myndina. Önnur hlutverk hafa setið á hakanum, en fréttir hafa borist að fleiri ofurhetjur mæti til leiks. Í ljósi þess virðist framleiðsla ekki vera komin langt á leið. Það ætti þó að gleðja einhverja að framleiðendur og leikstjóri myndarinnar vilji nýta tímann til fulls og gera þá kvikmynd sem þeir vilja gera.