Ben-Hur endurgerð í bígerð – Jesú kemur við sögu

Verið er að undirbúa endurgerð á stórmyndinni Ben-Hur, samkvæmt vefsíðunni Deadline.com.

Ben-Hur var frumsýnd árið 1959 og var leikstýrt af William Wyler með Charlton Heston í aðalhlutverki.

MGM kvikmyndaverið er búið að kaupa handrit af Keith Clarke sem vann það upp úr bókinni geysivinsælu Ben -Hur: A Tale Of The Christ frá árinu 1880 eftir Lew Wallace.

Upphaflega var það MGM kvikmyndaverið sem framleiddi Ben-Hur myndina gömlu, en tapaði síðar kvikmyndaréttinum . Bókin er hinsvegar orðin svo gömul að hver sem er getur notað efnið þar sem höfundarréttarlög ná ekki yfir hana lengur.

Þessi nýja útgáfa ku eiga að vera eitthvað frábrugðin síðustu útgáfu myndarinnar, og segja söguna af því hvernig Judah Ben-Hur og Messala ólust upp saman sem vinir en voru síðar aðskildir þegar Rómverjar réðust inn í Jerúsalem. Myndin mun einnig segja hliðarsögu af Jesú Kristi og munu koma fyrir samskipti á milli beggja persóna.

Judah Ben-Hur var prestur af gyðingaættum og Messala var sonur rómverks skattheimtumanns.

Eftir að Messala fer til í skóla til Rómar í fimm ár, þá snýr hann aftur með nýtt hugarfar. Messala gerir grín að Judah og trú hans sem endar með því að Messala svíkur æskuvin sinn, sem er síðan seldur í þrældóm og út í opinn dauðann á rómverskt herskip, en móður hans og systur er varpað í ævilangt fangelsi.

Judah deyr hinsvegar ekki, og heitir því að hefna sín á Messala, sem nær hámarki í frægum  hestakerrukapphlaupi.

Enn ein biblíumyndin

Það er athyglisvert að með því að flétta sögu Jesú Krists inn í söguna, þá er hér komin enn ein myndin með biblíutengingu, en verið er að undirbúa mynd um Pontíus Pílatus, landstjórann sem dæmdi Jesú til dauða, ( og Brad Pitt mun mögulega leika ) og tvær myndir um Móse eru í vinnslu sem Steven Spielberg og Ridley Scott eru orðaðir við. Síðast en ekki síst er væntanleg myndin um Örkina hans Nóa, sem var að hluta til tekin hér á Íslandi síðasta sumar, þar sem Russell Crowe leikur Nóa.