Elskar Lasagna eins og Grettir

Þann 29. maí næstkomandi verður ný teiknimynd um köttinn Gretti, eða Garfield eins og hann heitir á frummálinu, frumsýnd á Íslandi. Myndin heitir The Garfield Movie.
Með hlutverk Grettis í bandarísku útgáfunni fer leikarinn Chris Pratt en í íslensku talsetningunni er það enginn annar en leikarinn og grínistinn Vilhelm Neto sem bregður sér í líki hins matarelskandi, mánudagshatandi, kaldhæðna kattar.

Vilhelm segir í samtali við kvikmyndir.is að hann hafi verið mjög uppveðraður yfir að fá hlutverkið, og mun spenntari en vinir hans, enda hafi hann verið mikill skrítlu- og teiknimyndasöguaðdándi frá barnsaldri.
„Ég keypti mér myndasögur um Gretti strax sem barn og einnig bækurnar um Viggó viðutan og fleiri,“ segir Vilhelm.
Aðspurður segir hann að upptökur hafi farið fram í Sýrlandi í apríl síðastliðnum en talið fyrir stikluna hafi verið tekið upp í mars.

The Garfield Movie (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.7
Rotten tomatoes einkunn 36%

Kötturinn Grettir er á leið í stórskemmtilegt útivistar-ævintýri en eftir óvænta endurfundi með löngu týndum föður sínum, neyðast Grettir og hundurinn Oddi til að yfirgefa dekurlíf sitt og ganga til liðs við pabbann í hættulegri ránsferð....

Er mjög Grettislegur

Spurður um líkindi með sér og Gretti segir Vilhelm að Tinna kærasta sín segi að hann sé mjög „Grettislegur“. „Þó að ég vinni mikið þá get ég verið latur eins og Grettir,“ segir Vilhelm og hlær.

En hvernig nálgaðist hann hlutverkið. Breytti hann hljómi raddarinnar eitthvað? „Ég reyndi að dýpka aðeins röddina. Þegar maður er að tala inn á stórar myndir eins og þessa reynir maður að fara ekki of langt frá upprunalegu útgáfunni þar sem Pratt fer með hlutverkið. Ég reyndi hvað ég gat að gera Gretti að þeim kaldhæðnispésa og letingja sem hann er.“

Hatar mánudaga

Grettir hatar mánudaga, en elskar lasagna og annan ítalskan mat eins og brauðstangir og pítsur.
Hann býr með eigenda sínum Jóni, sem hann vefur um fingur sér, og hundinum Oddi, sem er engin vitsmunabrekka, nema síður sé.

„Ég er eins og Grettir, ég elska Lasagna. Ég panta mér það oft þegar ég fer á veitingahús. Ég er mjög góður kokkur en hef ekki náð nógu góðum tökum sjálfur á Lasagna. Ég vil hafa það með miklum osti,“ segir Vilhelm.
Aðspurður segir Vilhelm að myndin sé stærsta talsetningarverkefnið sitt til þessa.
Um þessar mundir má berja Vilhelm augum í Deleríum Búbónis í Borgarleikhúsinu og í haust fer Fíasól gefst aldrei upp aftur á svið. Þar fer Vilhelm einnig með hlutverk.

Skemmtileg mynd

Spurður að því hverju áhorfendur megi eiga von á þegar Grettir verður frumsýnd í lok mánaðarins segir Vilhelm að myndin sé þrælskemmtileg. „Mér þykir vænt um þennan kött og myndin er skemmtileg, sem er eins gott því það verður að vera gaman í vinnunni,“ segir Vilhelm að lokum og brosir.

Hér fyrir neðan má sjá leikaralista myndarinnar í heild sinni:

Grettir (Garfield) – Villi Netó

Vic (Vikki) – Hjálmar Hjálmarsson

Jon Arbuckle (Jón Árborg) – Sigurður Þór Óskarsson

Otto (Ottó) – Jóhann Sigurðarson

Jinx (Jinx) – Valgerður Guðnadóttir

Marge Malone (Magga Malone) – Halldóra Geirharðsdóttir

Roland (Orri) – Herra Hnetusmjör

Nolan (Skorri) – Ævar Þór Benediktsson

Ýmsir:

Eva Ruza

Eggert Unnar Snæþórsson

Patrik Snær Atlason

Birna Rún Eiríksdóttir

Berglind Alda Ástþórsdóttir

Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson

Ólafur S.K. Þorvaldz

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir

Þorsteinn Gunnar Bjarnason

Ævar Örn Jóhannsson

Árni Beinteinn Árnason

Lísa Bríet Malmquist

Gunnar Erik Snorrason