Bifreið úr Pulp Fiction finnst eftir 19 ár

Rauðu Chevrolet Chevelle Malibu bifreiðinni sem John Travolta keyrði í hlutverki leigumorðingjans Vincent Vega í kvikmyndinni Pulp Fiction var rænt stuttu eftir að tökum lauk árið 1994.

Fyrir nokkru hóf lögregluþjónninn Carlos Arieta að rannsaka Malibu bifreiðina eftir að sást til tveggja manna sem voru að taka bílinn í sundur út í vegakanti. Arieta tók niður plötunúmerið og ritaði númerið niður í númeraskrá. Lögregluþjóninum hefur eflaust brugðið þegar nafn Quentin Tarantino kom upp sem skráður eigandi bílsins. Einn af mönnunum sem var að taka bílinn í sundur sagðist vera eigandi bílsins og er talið að hann sé ekki sá sem stal honum á sínum tíma, heldur fórnarlamb svindls.

Tarantino hefur ekki tjáð sig um málið en það þykir líklegt að hann verði hæstánægður að fá bílinn sinn til baka. Tarantino er mikill áhugamaður um bíla og er til dæmis hinn frægi Pussy Wagon bíll úr kvikmyndinni Kill Bill í heimreiðinni hjá honum.