Björk aftur á hvíta tjaldið

Mæðgurnar Björk Guðmundsdóttir og Ísidóra Bjarkardóttir fara með hlutverk í stórmyndinni The Northman eftir Robert Eggers. Sjón skrifar handrit kvikmyndarinnar ásamt leikstjóra hennar, Robert Eggers.

Sjón skrifar handrit kvikmyndarinnar ásamt leikstjóra hennar. Sjón og Björk hafa áður unnið saman við kvikmyndir því Sjón skrifaði lagatexta við lögin í kvikmyndinni Dancer in the Dark. Þar lék Björk aðahlutverkið og hlaut Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir árið 2000. Lagið I’ve seen it all var einnig tilnefnt til Óskarsverðlauna. Björk er sögð leika norn í The Northman.

Saga myndarinnar gerist á Íslandi við upphaf 10. aldar en heimildir herma að hún verði tekin upp að stórum hluta í Kanada, en Eggers notaðist mikið við landið við tökur á fyrri verkum sínum, sem eru kvikmyndirnar The Witch og The Lighthouse. Báðar kvikmyndir leikstjórans hafa hlotið nær einróma lof gagnrýnenda og vakið athygli víða um heim.

The Northman skartar ýmsum þekktum andlitum og má búast við þeim Nicole KidmanAnya Taylor-JoyWillem Dafoe ásamt bræðrunum Bill og Alexander Skarsgård. Myndin segir í grunninn frá norskum prinsi sem hyggst koma morðingja föður síns fyrir kattarnef. Myndin er framleidd af Lars Knudsen, dönskum framleiðanda, sem hefur látið gott af sér leiða með þekktum hryllingsmyndum á borð við Hereditary og Midsommar.

Ekki er komin dagsetning á víkingamyndina en gera má fastlega ráð fyrir því að hún verði frumsýnd á næsta ári.