Þrestir taka flugið á TIFF

rúnar rúnarssonSkipuleggjendur einnar stærstu kvikmyndahátíðar í heiminum, Toronto International Film Festival, tilkynntu í dag að kvikmyndin ÞRESTIR eftir Rúnar Rúnarsson yrði heimsfrumsýnd á þeirra vegum nú í september.

ÞRESTIR virðast aldeilis vera að fljúga vel af stað en nýlega var tilkynnt að hún hefði verið valin í aðalkeppnina á hinni virtu kvikmyndahátíð í San Sebastian á Spáni.

“Það er þvílíkur heiður og frábær árangur að vera á viku millibili á tveimur af mikilvægustu kvikmyndahátíðum heimsins,” Segir Mikkel Jersin einn af framleiðendum myndarinnar í tilkynningu frá aðstandendum, og er bjartsýnn á framhaldið.

“Ég er fyrst og fremst stoltur af samverkafólki mínu sem hefur vaðið eld og brennistein til að gera ÞRESTIR mögulega. Kvikmyndaframleiðsla er dýr útgerð og eiga þessar viðurkenningar á okkar störf eftir að reynast okkur vel í fjármögnun á framtíðar verkefnum. Mest hlakka ég til að frumsýna myndina fyrir fólkið okkar heima á Íslandi í október” segir Rúnar Rúnarsson leikstjóri.

Sparrows_2

Ísland fer mikinn á hátíðinni en fyrir utan ÞRESTI þá verður heimildamyndin Sjóndeildarhringur eftir Friðrik Þór Friðriksson og Berg Bernburg, kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson og sjónvarpþættirnir Ófærð, sýndar á hátíðinni.

ÞRESTIR er dramatísk mynd sem fjallar um 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að búa með föður sínum sem hann hefur ekki séð í ein sex ár.

Tónlist myndarinnar er samin af Kjartani Sveinssyni. 
 

Í aðalhlutverkum eru Atli Óskar Fjalarsson, Ingvar E. Sigurdsson, Rakel Björk Björnsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Rade Serbedzija.

ÞRESTIR kemur í almennar sýningar 16. október á vegum Senu.

Lesa má meira um myndina hér og á Facebook síðu myndarinnar.