Þrjár myndir fá 8, 5 og 4 stjörnur

Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is er misörlátur á stjörnurnar í þremur splunkunýjum umfjöllunum hér á síðunni. Hann gefur Easy-A heilar 8 stjörnur af tíu mögulegum, en grínmyndin Due Date, með þeim Robert Downey Jr. og Zach Galifianakis, fær aðeins 5. Lestina í stjörnugjöfum rekur svo nýjasta mynd Baltasars Kormáks, Inhale, með aðeins 4 stjörnur og fyrirsögnina, Æi Balti

Tómas segir að Easy-A sé ekkert minna en hin nýja Clueless. „Easy A er, án djóks, FULLKOMIN mynd handa gelgjum en sömuleiðis bíófíklum og þeim sem hafa gaman að snjöllum samtölum, litríkum persónum og ófyrirsjáanlegum uppákomum,“ segir Tómas meðal annars um Easy-A.

Due Date fær ekki eins góða gagnrýni frá Tómasi sem segir myndina vera sláandi líka Planes Trains and Automobiles eftir John Hughes sem er hennar mesti galli að mati Tómasar: „Í Due Date má finna ýmsa fína brandara en mér fannst vera mjög langt á milli þeirra, og jafnvel þeir sem voru eitthvað góðir fengu mig meira til að brosa stíft heldur en hlæja. Ekki nema kannski svona tvö atriði í mesta lagi sem fengu mig til að hlæja upphátt,“ segir Tómas meðal annars í dómi sínum.

Um Inhale segir Tómas, að myndin nái að halda athygli manns fyrsta klukkutímann en breytist svo í tóma tjöru. „“Mér þykir það pínu athyglisvert hvernig Inhale nær lúmskt að halda áhuga manns fyrsta klukkutímann eða svo áður en hún sekkur út í tóma tjöru í lokaþriðjungnum og toppar sig síðan rækilega með hryllilegum endi sem á sér nánast ekkert efnislegt samhengi við heildina,“ segir Tómas meðal annars í dómi sínum.

Við minnum á að nýjar umfjallanir frá Tómasi og notendum kvikmyndir.is eru að detta inn á vefinn nánast daglega, en nú nýlega komu til dæmis tvær nýjar umfjallanir frá Jónasi Haukssyni sem hefur verið duglegur að fjalla um Disney myndir á síðustu vikum og mánuðum.

Góða skemmtun!