Buffaður Gosling – nýjar myndir og plakat

Nýjar myndir eru komnar úr nýjasta verkefni þeirra leikarans Ryan Gosling og leikstjórans  Nicolas Winding Refn en þeir gerðu hina stórgóðu Drive saman. Nýjasta mynd þeirra heitir Only God Forgives. Þetta er glæpa drama sem gerist í Bangkok í Taílandi, og fjallar um Julian, sem Gosling leikur, sem rekur taílenskan hnefaleikaklúbb ( skýrir kannski ástandið á andlitinu á honum á myndunum ).

Fyrir nokkru sýndum við mynd þar sem greinilega var búið að berja Ryan Gosling í buff, í hlutverki sínu, og hér bætast við myndir af honum í svipuðu ásigkomulagi, ásamt leikstjóranum, Refn.

Söguþráðurinn er þessi: Julian ( Gosling ) býr í útlegð í Bangkok þar sem hann rekur taílenskan hnefaleikaklúbb, sem er í raun skálkaskjól fyrir eiturlyfjasmyglhring fjölskyldu hans. Þegar bróðir Julians, Billy, er myrtur þá kemur móðir þeirra Jenna ( Kristen Scott Thomas ) til borgarinnar. Hún vill að sonar síns verði hefnt  og neyðir Julian til að finna morðingjann. Sambönd Julian í glæpaheiminum leiða hann beint til Hefndarengilsins, lögreglumanns sem er farinn á eftirlaun sem veit allt og er bæði dómari og böðull, allt í senn. Jenna krefst þess að Julian drepi Hefndarengilinn, sem á eftir að hafa miklar afleiðingar í för með sér.

Gosling ( líklega ) á áhorfendapöllunum í boxklúbbnum.

Sjáðu plakatið hér að neðan:

 

 

Only God Forgives verður frumsýnd 23. maí á næsta ári.

Það er fullt tilefni til að hlakka til þessarar myndar, eða hvað finnst þér?