Byrjuðu snemma að vinna með Hildi

Todd Phillips, leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi Joker: Folie à Deux sem kemur í bíó á fimmtudaginn 3. október nk. segir það aldrei hafa verið spurningu að fá kvikmyndatónskáldið Hildi Guðnadóttur, sem fékk Óskarsverðlaunin fyrir tónlistina í fyrri myndinni, aftur til að semja tónlistina í nýju myndina.

“Það var aldrei spurning. Það kom aldrei til greina að kalla hana ekki inn aftur til að semja tónlistina. Tónlist Hildar er, eins og ég hef sagt áður, líklega stærsta persónan í fyrstu kvikmyndinni. Og þessvegna hófst vinnan með Hildi mjög snemma í ferlinu, rétt eins og í Joker 1, með því að hún las handritið. En hún gerði meira en að lesa handritið og byrja að semja tónlistina, því við létum hana fá nóturnar að lögunum For Once In My Life og Bewitched, og báðum hana að Hilda þau (e. Hildurize). Við notuðum auðvitað ekki það orð, ég var bara að finna upp á því, en við báðum hana að máta hljóðheim sinn við lögin. Hún tók áskoruninni og ég held að hún hafi notið þess. Og það lætur þessi sígildu lög hljóma eins og þau séu hluti af myndinni okkar.”

Joker: Folie à Deux (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.2
Rotten tomatoes einkunn 32%

Hinn misheppnaði grínísti Arthur Fleck glímir áfram við tvöfalda sjálfsmynd sína og hittir draumadísina Harley Quinn á Arkham sjúkrahúsinu. Þar finnur hann einnig tengingu við tónlistina sem hefur alltaf hljómað innra með honum. ...

Aðalleikari kvikmyndarinnar, Joaquin Phoenix, segir um Hildi: “Tónlist Hildar var risastór hluti af fyrstu kvikmyndinni og stór hluti af þróun persónunnar; ég held að ég hefi fundið karakterinn, Joker, þegar ég hlustaði á tónlistina á tökustað, á meðan tökuvélarnar rúlluðu. Og það er mjög sérstök tilfinning, alltaf þegar eitthvað lifnar svona við, og að fá það fest á filmu.

Frá þessu augnabliki, þá fannst mér persóna mín og tónlist Hildar vera mjög nátengd. Þannig að það var mjög spennandi að heyra að hún myndi snúa aftur í þessa mynd. Ég held að við höfum alltaf verið að leita að leiðum til að þessi hluti persónunnar tjái sig í þessari kvikmynd, og mikið af því er í gegnum tónlist Hildar. Þannig að það var ekki bara frábært að fá hana aftur heldur líka að heyra nýjar útgáfur hennar af einhverju af þematónlistinni.”