Spá Joker metaðsókn

Nýjasta mynd Hangover leikstjórans Todd Phillips, Joker, er líkleg til að fá metaðsókn þegar hún verður frumsýnd í október nk., samkvæmt fyrstu aðsóknarspám ( e. Treacking ). Frá þessu segir á vef The Hollywood Reporter.

Phoenix alvarlegur á svip.

Þessi upprunasaga erkióvinar Batman, frá Warner Bros, með Joaquin Phoenix í titilhlutverkinu, stefnir í heildartekjur upp á 83 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum á frumsýningarhelgi þann 4. – 6. október nk., samkvæmt þeim sem aðgang hafa að áætlunum frá rannsóknar – og greiningarfyrirtækinu NRG. NRG hjálpar meðal annars kvikmyndaframleiðendum að raða niður kvikmyndum í sýningar til að hámarka gestafjölda og aðgengi. Annað fyrirtæki segir að myndin muni fá 77 milljónir dala í tekjur, en aðrir spá enn meiri tekjum þessa fyrstu helgi, eða 87 milljónir.

Sú mynd sem á aðsóknarmetið í Bandaríkjunum í október er ofurhetjumyndin frá Sony, Venom, en tekjur hennar á frumsýningarhelgi í fyrra námu 80,2 milljónum dala.

Byrjað var að áætla aðsókn á Joker í síðustu viku, samkvæmt frétt The Hollywood Reporter. Þessar „Tracking“ áætlanir eru ekki nákvæm vísindi, samkvæmt vefsíðunni, og hafa ekki náð neinum sérstökum árangri það sem af er ári.

Af öðrum myndum sem byrjað er að áætla fyrir með þessum hætti er vísindaskáldagan Gemini Man eftir Ang Lee, með Will Smith í aðalhlutverkinu. Fyrstu spár sýna að tekjur hennar á frumsýningarhelgi muni nema 29 milljónum dala, sem er betra en önnur mynd Lee, Life of Pi, en tekjur hennar námu 22,5 milljónum dala á frumsýningarhelginni. Gemini Man verður frumsýnd 11. október.

Gemini Man segir frá háklassa leigumorðingja sem Smith leikur, en hann er eltur af yngri útgáfu af sjálfum sér. Aðrir helstu leikarar eru Clive Owen, Mary Elizabeth Winstead og Benedict Wong.