Phoenix vill verða Jókerinn

Bandaríski leikarinn Joaquin Phoenix á í viðræðum um að leika sjálfan erkióvin Leðurblökumannsins, Jókerinn, í nýrri mynd The Hangover leikstjórans Todd Philips sem ekki hefur enn fengið nafn. Þó að samningaviðræður við Warner Bros framleiðslufyrirtækið séu ekki hafnar þá er Phillips harðákveðinn í að fá Phoenix í hlutverkið. Heimildir Variety kvikmyndaritsins herma að  Phoenix hafi samþykkt að taka hlutverkið að sér.

Phillips mun skrifa handrit myndarinnar ásamt Scott Silver,  og leikstýra. Phillips og Phoenix hittust skömmu fyrir áramót, samkvæmt frétt Variety, og það eina sem á eftir að fá er endanlegt samþykki kvikmyndaversins. Aðilar úr bransanum segja að Jared Leto, sem lék Jókerinn í Suicide Squad ofurhetjumyndinni, muni halda því áfram í DC Comics kvikmyndunum, og ráðning Phoenix í þessa ónefndu mynd breyti engu þar um.

Samkvæmt fréttinni þá myndi kvikmyndin tilheyra nýrri myndaröð innan DC Comics teiknimyndaheimsins, sem gæfi Warner Bros færi á að þróa ýmsar hliðarsögur. Sagt er að kvikmyndin muni fjalla um forsöguna að því hvernig Joker varð jafn alræmdur glæpamaður og hann síðar varð. Einnig er hermt að sagan eigi að gerast á níunda áratug síðustu aldar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Phoenix er orðaður við ofurhetjukvikmynd. Upphaflega kom hann til greina í hlutverk Lex Luthor í Batman v Superman: Dawn of Justice, en hafnaði hlutverkinu, sem Jesse Eisenberg var síðar ráðinn í. Þá átti hann í viðræðum við Marvel útaf Doctor Strange, en hafnaði því einnig. Nýjasta mynd Phoenix er He Won´t Get Far on Foot.