Craven segir Scream 5 á leiðinni

Hryllingstáknið Wes Craven, leikstjóri Scream myndanna, segir fimmtu myndina vera á leiðinni. Þetta kemur talsvert á óvart, því Scre4m þótti vera vonbrigði í miðasölunni, en myndin kostaði 40 milljónir Bandaríkjadala að gera, en náði aðeins 38 milljónum til baka í miðasölunni þar vestra. Þó halaði myndin inn um 97 milljónir samtals um allan heim, og sú tala er farin að skipta meira og meira máli í kvikmyndaiðnaðinum. Hugmyndin um að gera fimmtu myndina er ekki ný á nálinni, en Craven staðfesti í viðtali við movieweb að hugmyndin með fjórðu myndinni hefði verið upphafið á nýjum þríleik í seríunni, svo þyrfti bara að sjá hernig hverri mynd gengi til að vita hvort næsta yrði gerð. Og hann er vongóður að sú fjórða hafi gengið nógu vel:

„Já, það eru talsverðar líkur á að Scream 5 líti dagsins ljós. Þetta er eitthvað sem Bob Weinstein langar til að gera, og hann framkvæmir yfirleitt það sem hann langar til. Verð ég með í myndinni? Ég veit ekki, en en samningurinn minn leyfir mér að velja. Svo ef þeir sína mér eitthvað stórkostlegt? Auðvitað verð ég með.“

Annars vildi Craven ekkert gefa upp um efni nýju myndarinnar og sagði „I´d have to kill you if I told you“. En ef ég ætti að giska myndi ég segja að hún muni fjalla um Sidney Prescott að reyna að lifa eðlilegu lífi, svo fer morðingi í svörtum kufli að drepa fólk í kring um hana, sem svo kemur í ljós að er einn af kunningjum hennar. Sjálfur sá ég ekki Scream myndirnar fyrr en nýlega, og hafði bara gaman af. Gæti vel verið að maður nennti að sjá eina í viðbót í retta skapinu. Scream er líka einstök (hryllingsmynda) sería að hafa haldið sömu aðalpersónum og leikstjóra í fjórar myndir, þannig að það væri gaman að sjá þau gera myndina þó ekki til annars en að bæta metið. Eða hvað?