Cruise tók mestu áhættu lífs síns

Hollywood stjarnan Tom Cruise er þekktur fyrir að leika sjálfur áhættuatriðin í kvikmyndum sínum. Oftast nær ganga þau eins og í sögu, en einstaka sinnum hefur hann þó slasað sig á þessum uppátækjum. Allt fór þó vel í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þegar hann lék í sínu svakalegasta atriði til þessa, þegar hann stökk svokallað Halo stökk úr flugvél, en Halo stendur fyrir High Altitude Low Opening, eða þegar stokkið er úr mikilli hæð en fallhlífin opnuð mjög nálægt jörðu. Þetta gerði kappinn fyrir mynd sína Mission: Impossible – Fallout, sem væntanleg er í bíó 1. ágúst nk.

Eins og segir á vef Arabian Business News, þá er Cruise fyrsti kvikmyndaleikarinn til að framkvæma svona stökk.

Maryam Eid AlMheiri segir í samtali við vefsíðuna að tökur á stökkinu hafi tekið 10 daga, og notuð var C17 herflugvél frá flugher Sameinuðu arabísku furstadæmana.

„Þetta er í fyrsta skipti sem leikari sést framkvæma halo stökk, þar sem stokkið er úr 25 þúsund feta hæð, og hraðinn er 320 kílómetrar á klukkustund. Við erum afsakaplega stolt af því að það hafi gerst í Abu Dhabi,“ sagði AlMheiri.

Halo stökk eru notuð af hernum, m.a. þegar afhenda skal búnað og birgðir úr flugvél á ferð, og er mjög áhættusamt.

Á samfélagsmiðlum þakkaði leikarinn frábæru starfsfólki í Abu Dhabi fyrir hjálpina.

„Áhættuatriðin eru framkvæmd í sífellt meiri hæð þar sem súrefnismagn er minna … takk frábæra tökulið og allir í Abu Dhabi … fyrir hjálpina og samstarfið. Kvikmyndatökur okkar hér halda áfram að vera frábær reynsla,“ sagði hann.

Tökur á Mission: Impossible Fallout tóku eitt ár, en þetta er fimmta Hollywood stórmyndin sem tekin er í Abu Dhabi. Þetta var önnur Mission: Impossible kvikmyndin sem tekin er upp í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en Mission: Impossible – Ghost Protocol var tekin upp í Dubai eyðimörkinni og í Burj Khalifa skýjakljúfnum.