DiCaprio og fleiri í The Great Gatsby

Baz Luhrmann, sem leikstýrði meðal annars Moulin Rouge!, vinnur nú eins og enginn sé morgundagurinn að handriti næstu myndar sinnar, The Great Gatsby, eftir samnefndri skáldsögu. Leikarar flykkjast skiljanlega að leikstjóranum en nú er hann búinn að ráða í þrjú helstu hlutverkin.

Bókin, sem F. Scott Fitzgerald skrifaði, er víða talin meistaraverk og fjallar um ungan mann að nafni Nick Carraway sem snýr aftur úr fyrri heimsstyrjöld og kynnist heimi þeirra moldríku. Hann kemst hins vegar að því að sá heimur er ekki jafn heillandi og hann sýnist í fyrstu, en hann kynnist meðal annars partý ljóninu Jay Gatsby. Tobey Maguire mun fara með hlutverk Carraway og Leonardo DiCaprio mun leika Jay Gatsby. Einnig hefur Carey Mulligan gengið til liðs við myndina, en hún hefur slegið rækilega í gegn nýlega í myndum á borð við An Education og Wall Street: Money Never Sleeps.

– Bjarki Dagur