Fyrsta stiklan úr ævintýramyndinni um Dóru landkönnuð, sem ætti að vera flestum Íslendingum að góðu kunn, Dora and the Lost City of Gold, er komin út. Það er Paramount Pictures kvikmyndafyrirtækið sem framleiðir myndina, sem minnir um margt á Indiana Jones.
Kvikmyndin er byggð á vinsælum teiknimyndaseríum um Dóru sem Nickleodeon fyrirtækið framleiðir.
Með hlutverk Dóru fer Isabela Moner, en aðrir helstu leikarar eru Eva Longoria úr Aðþrengdum eiginkonum, og End of Watch leikarinn Michael Peña, sem leika foreldra Dóru. Sicario leikarinn Benicio Del Toro talar fyrir stelsjúka refinn Swiper, eða Nappa eins og hann heitir á íslensku.
Í stiklunni fylgjumst við með því þegar Dóra þarf að yfirgefa heimahagana í frumskóginum og fara í miðskóla í fyrsta skipti. Þrátt fyrir að henni hafi verið sagt að halda sig í borginni á meðan foreldrarnir leita að Gullborginni, þá endar þetta auðvitað með því að Dóra fer ásamt skólafélögunum og besta vini sínum apanum Boots, eða Klossa eins og hann heitir á íslensku, sem Danny Trejo talar fyrir, og Diego, sem Jeffrey Wahlberg leikur, í magnaða ævintýraför til að bjarga foreldrum sínum og leysa gátuna um gullborgina týndu.
Leikstjóri er James Bobin og Nicholas Stoller og Matthew Robinson skrifa handrit.
Myndin er væntanleg í íslensk bíóhús 30. águst, en kemur í bíó 2. ágúst í Bandaríkjunum.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: