Einn vinsælasti vestri allra tíma

Hin stjörnum prýdda The Magnificent Seven, eftir Antonine Fuqua, þaut á topp bandaríska bíóaðsóknarlistans nú um helgina og þénaði áætlaðar 35 milljónir Bandaríkjadala fyrir helgina alla.

denzel the magnificent

Þetta þýðir að myndin er einn tekjuhæsti vestrinn á frumsýningarhelgi í Bandaríkjunum frá upphafi, þegar ekki er tekið tillit til verðbólgu.

Spár gáfu von um að myndin gæti náð allt að 40 milljóna dala tekjum yfir helgina, en það virðist ekki alveg ná að ganga eftir. Metsölumyndin í vestraflokknum, fyrir leikna mynd, er Cowboys & Aliens, með 36,4 milljónir dala á frumsýningarhelgi, en séu teiknimyndir teknar með, þá þénaði Rango enn meira, eða 38,1 milljón dala á sinni frumsýningarhelgi.

Magnificent Seven er endurgerð sígilds vestra frá árinu 1960, sem aftur var endurgerð á sígildri mynd Akira Kurosawa, Seven Samurai. 

Með helstu hlutverk fara Denzel Washington, Chris Pratt, Ethan Hawke og Vincent D’Onofrio, auk Byung-hun Lee, Manuel Garcia-Rulfo, Martin Sensmeier, Haley Bennett og Peter Sarsgaard.

Magnificent Seven er hér með orðin vinsælasta mynd Fuqua miðað við tekjur á frumsýningarhelgi, en fyrri toppmynd hans var The Equalizer sem þénaði 34,1 milljón dala á frumsýningarhelgi. Denzel Washington fór einnig með aðalhlutverk í þeirri mynd.

Tekjuhæsta mynd Washington á frumsýningarhelgi er hinsvegar American Gangster frá árinu 2001, með 43,6 milljónir dala í tekjur, og þar á eftir Safe House með 40,2 milljónir dala.

Önnur vinsælasta myndin í Bandaríkjunum er teiknimyndin Storks og hin sannsögulega Sully, eftir Clint Eastwood situr í þriðja sætinu, en myndinni hefur gengið vel í bíó, og hefur þénað samanlagt 92,4 milljónir dala í Bandaríkjunum frá því hún var frumsýnd.

Hér má lesa meira um aðsóknartölur í Bandaríkjunum.