Eldfjall hlaut silfurverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Chicago

Eldfjall, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, hlaut silfurverðlaun í flokki
nýrra leikstjóra á kvikmyndahátíðinni í Chicago um helgina.

Í úrskurði dómnefndar segir að Eldfjall sé mynd sem „kalli fram
djúpstæð tilfinningaleg viðbrögð sem eiga ekkert skylt við væmni.
Myndin teflir fram heimilisrýminu annars vegar og magnþrungnu íslensku
landslagi hins vegar með frábærum árangri. Rúnar Rúnarsson hefur ekki
bara gert enn aðra myndina um endurlausn, heldur greinir frumraun hans
frá þeim siðferðislega vanda sem margbrotinn eldri maður stendur
frammi fyrir.“

Eldfjall hefur þegar unnið til fjölda verðlauna, t.a.m. fyrir bestu
leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Transilvaníu, gagnrýnendaverðlaunin
og verðlaun þjóðkirkjunnar á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík,
auk þess sem Theódór Júlíusson hlaut verðlaun sem besti leikari á
kvikmyndahátíðinni í Kazakstan. Eldfjall er framlag Íslands til
Óskarsverðlaunanna og í forvali til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á
eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá
fjölskyldunni og heimilinu og þarf nú að takast á við nýtt hlutverk í
lífinu. Eldfjall er þroskasaga manns sem þarf að horfast í augu við
val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á
framtíð.