Er Drive endurgerð af The Driver?

Flestir kvikmyndaunnendur sáu art-house glæpamynd Nicholas Winding Refns um þagmælta ökumanninn á síðasta ári, enda stórgóð og öðruvísi kvikmynd þar á ferð. Myndin var meðal annars í örðu sæti á topplistanum mínum fyrir síðasta ár. En í gær sá ég  34 ára gamla mynd sem ekki aðeins hljómar helvíti lík Drive, heldur eru einnig nokkur atriði og skot alveg keimlík.

Myndin heitir The Driver og er leikstýrð og skrifuð af Walter Hill, sem er þekktur fyrir nokkuð margar cultmyndir á borð við The Warriors, The Long Riders og stórsmellinum 48 Hours.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að Drive er byggð á bók, og þessi pistill er alls ekki að ásaka Drive um að hún sé stolin. Þetta er einfaldlega skemmtilegur samanburður sem gæti komið mörgum á óvart. Hver veit, kanski fékk Drive lúmskt innblástur frá The Driver?

 

ATH: Mjög mikið af spyllum fyrir báðar myndir


Ryan Gosling leikur persónuna Driver, sem er þagmæltur ökumaður fyrir skuggalega starfsemi glæpamanna (aðallega rán). Á daginn er hann áhættuökumaður fyrir kvikmyndir. „Love interest“ bætist í heildarmyndina, en ákveðnar aðstæður koma í veg fyrir að það fari lengra. Driver sogast inn í valdabaráttu þegar ákveðið starf reynist vera gildra, en hann ákveður að taka málin í sínar eigin hendur.

Ryan O’Niel leikur persónuna The Driver, sem er einnig þagmæltur ökumaður fyrir skuggalega starfsemi glæpamanna (aðallega rán). Á daginn hefur hann enga stefnu eða vandamenn í lífi sínu. „Love interest“ bætist í heildarmyndina, en ákveðnar ástæður koma í veg fyrir að það fari lengra. Driver sogast í lögreglurannsókn þegar ákveðið starf reynist vera gildra, en hann ákveður að taka málin í sínar eigin hendur.


Þú sérð þá báða tvo einnig:

*Stela bíl

*Ganga frá gaur sem endar á að náunginn endar í gólfinu þar sem Driver hefur yfirhöndina.

*Skjóta örfáum sinnum úr byssu(Drive:  1 skipti – The Driver: 2 skipti).

*Meðhöndla tösku fulla af peningum (töskurnar eru einnig svipaðar… minnir mig)

Fyrsta sena myndarinnar er gateway-rán í Los Angeles þar sem Driver situr og bíður eftir ræningjunum tveim(sem koma út með hulin andlit og taka svo af höfðinu í bílnum)og reynir að forðast lögguna. Það heppnast ekki alveg og hann þarf að stinga lögguna af. Honum tekst það og ránið telst vel heppnað.

Upphafssenan í Drive og The Driver innihalda líka mjög lík skot og er meira segja hægt að fá helvíti mikinn Drive-fíling ef þú spilar lagið Tick of the Clock eftir The Chromatics undir gateway atriðið í The Driver.

Söguþráðurinn er öðruvísi í báðum myndum, en hugmyndir sem koma fram í söguþræðinum og aukapersónum myndanna eru ansi líkar. Í The Driver er erkifjandi Driversins lögreglufógeti- algjör andstæða við persónu Albert Brooks í Drive, en hann virðist hafa svipaðan rólegan drifkraft og stuttan þráð (+semí-krullur). Gildran sem lögð er í The Driver er hinsvegar ætluð The Driver frá upphafi- það eru t.d. mjög skemmtilega misheppnaðar tilraunir hjá ræningjunum sem vinna með löggunni í málinu í að reyna að fá The Driver til að hjálpa þeim í ráninu. En í Drive flækist hann inn í gildruna þegar hann býðst til þess að hjálpa þeim sem gildran var ætluð frá upphafi.

Það kemur einnig að því í báðum myndum að Driver eltist við eina persónuna sem kom honum í klandrið og endar á svipuðu uppgjöri (reyndar er fyrst mikill eltingarleikur í The Driver milli þeirra).

Og að lokum er síðan lokauppgjör milli Driver og erkifjanda síns í myndinni, þar sem Driver bindur enda á allt málið. Hins vegar eru uppgjörin ólík og fer öðruvísi fyrir persónunum í báðum myndunum- en peningavandinn er leystur.

Síðan er þetta atriði sem kemur fyrr í myndinni helvíti svipað (með ólikum persónum):

Langaði bara að bera þetta saman. Það er líka skemmtilegt að hafa þetta á bakvið eyrað næst þegar maður sér Drive. Báðar myndirnar eru stórgóðar og virka fáránlega vel sem double-feature. Hvað finnst notendum, er eitthvað til í þessum samanburði og hafa einhverjir hér séð The Driver?