Facebook mynd líkleg til að verða umtöluð

Kvikmyndin The Social Network var opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í New York á föstudaginn, en menn búast við því að myndin muni vekja talsverða athygli og er talað um að myndin gæti jafnvel orðið sú mest umtalaða á þessu ári í Bandaríkjunum.
Kvikmyndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum þann 1. október, en tveimur dögum áður verður kvikmyndir.is með forsýningu

á myndinni í sal 1 Smárabíói kl. 20.

Í frétt Reuters um sýningu myndarinnar í New York fyrir helgi, segir að ekki sé búist við að aðalsöguhetja myndarinnar, Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook muni mæta á frumsýninguna. Hann hafnaði allri samvinnu við framleiðendur kvikmyndarinnar og sagði við spjallþáttadrottninguna Opruh Winfrey á föstudag í þætti hennar..“Þetta er kvikmynd, þetta er fjör,“ en sagði að hans eigið líf væri ekki jafn dramatískt eins og gefið er í skyn í myndinni. Zuckerberg hafnaði einnig allri samvinnu við höfunda bókarinnar sem myndin er byggð á, sem heitir The Founding of Facebook, A Tale of Sex, Money, Genius and Betrayal.

Auðæfi Zuckerbergs eru metin nú á 6,9 milljarða Bandaríkjadala, eða 789 milljarða íslenskra króna,

Það eru engir smákallar sem standa á bakvið myndina. Leikstjórinn er David Fincher, sem þekktur er fyrir myndir eins og Fight Club, Se7en og The Curious Case of Benjamin Button, og handritshöfundur er Aaron Sorkin, best þekktur fyrir the West Wing sjónvarpsþáttaseríuna rómuðu.

„Þetta er sönn saga, en með þeim fyrirvara að menn hafa mismunand útgafur af sannleikanum og því sem gerðist í raun og veru. Myndin tekur ekki neina afstöðu um hver sannleikurinn er. Hún segir sögu allra,“ segir Sorkin í samtali við Reuters fréttastofuna.

The Social Network segir söguna af því hvernig Mark Zuckerberg, forstjóri og annar af stofnendum Facebook, breyttist úr gáfuðum, feimnum Harvard háskólanema, yfir í heitasta gaurinn í Silicon Valley.

Leikstjórinn, Fincher, segir í samtali við Reuters, að hann hafi vitað það frá byrjun að myndin gæti orðið umdeild, en hann hafi ekki viljað hlífa Zuckerberg í myndinni. „Ég veit að þetta er umdeilt,“ sagði Fincher. „Mér líkar sú staðreynd að hann er klárari og varasamari, en allir hinir, og hann er ekkert að afsaka það neitt.“

Fincher vill ekki segja hvort að honum finnist myndin vera sönn saga eða skáldsaga, en segir aðeins að kvikmyndir sem byggjast á staðreyndum verði að vera miðaðar út frá sjónarhóli ákveðinnar persónu.

Myndin hefur fengið mjög góða dóma nú þegar hjá þeim sem hafa fengið að sjá myndina, og nú þegar eru menn farnir að tala um hugsanlegar Óskarstilnefningar.

„Þetta er ekki saga um vefsíðu, þetta er saga um tíma og stað og vináttu, hóp draumóramanna, og fullt af fólki sem sáu hvernig framtíðin átti eftir að verða, og reyna að græða á því, og svo beiskjunni sem braust út á milli þeirra,“ sagði Fincher.

Hlutverk Zuckerbergs í myndinni leikur hinn 26 ára gamli Jesse Eisenberg, sem sést á myndinni sem fylgir fréttinni, Andrew Garfield leikur fjármálastjóra Facebook, Saverin, og Justin Timberlake leikur skapara Napster tónlistarsskráarskiptasíðunnar, netsnillinginn Sean Parker.

Enginn þessara manna er birtur í sérstaklega jákvæðu ljósi í myndinni, að því er segir í frétt Reuters.