Fassbender og Wyatt til Londongrad?

Warner Brothers eru nú að reyna að koma hreyfingu á handrit sem þeir eiga nefnt Londongrad, og hafa þeir nú reynt að lokka Michael Fassbender í aðalhlutverkið og Rupert Wyatt (Rise of the Planet of the Apes) í leikstjórastólinn. Handritið er eftir David Scarpa, og byggir á sannri sögu Alexander Litvinenko, sem glöggir lesendur muna eflaust eftir, en skv. wikipedia var hann:

„undirofursti í rússnesku öryggisþjónustunni FSB. Árið 2000 flutti hann til Bretlands og gerðist breskur ríkisborgari og rithöfundur. Hann gagnrýndi harkalega þáv. forseta Rússlands, Vladímír Pútín. 1. nóvember 2006 veiktist Litvinenko og var lagður inn á spítala í Lundúnum. Þann 19. nóvember 2006 sagði breska dagblaðið Sunday Times frá því að það hefði verið eitrað fyrir Litvinenko og að hann lægi þungt haldinn á sjúkrahúsi í London. Þá var sagt frá því að eiturefnið hefði verið þallíum en reyndist síðar verið hið sjaldgæfa geislavirka efni Pólon-210. Eitrunin er sögð hafa átt sér stað á fundi sem Litvinenko átti í sambandi við morðið á Önnu Politkovskaju. Fyrir andlát sitt skrifaði Litvinenko bréf þar sem hann lýsir því að Pútín hafa skipað fyrir eitruninni á honum.“

Málið vakti að sjálfsögðu mikla athygli og mörgum fannst það hljóma eins og endirinn á Kaldastríðs njósnamynd. Þannig að það eigi að gera spennumynd eftir sögunni kemur kannski ekki á óvart. Á þessu stigi málsins er alls óvíst hvort þeir Fassbender og Wyatt munu skuldbinda sig verkefninu, en víst er að þeir hafa báðir úr nægum verkefnum að velja eftir velgengni síðustu verka þeirra. Þannig að ef við sjáum þetta verða að veruleika er víst að þeir hafi góða trú á efninu.