Ný stikla er komin út fyrir hrollvekjuna We Are What We Are eftir Jim Mickle. Stiklan sem líður áfram í hrollvekjandi hægagangi, lítur mjög vel út, en um er að ræða endurgerð á samnefndri mynd frá Mexíkó eftir Jorge Michel Grau. Leikstjórinn skrifaði handritið ásamt Nick Damici. Myndin, sem sýnd var bæði á Sundance kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum í janúar sl. og á Cannes hátíðinni í Frakkalandi í vor, gerist í Suðurríkjum Bandaríkjanna og fjallar um samheldna fjölskyldu sem lendir í þónokkrum erfiðleikum, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:
Fjölskyldan samanstendur af hinum stranga fjölskylduföður Frank, sem Bill Sage leikur, og dætrum hans Iris og Rose, sem Ambyr Childers og Julia Garner leika. Einnig kemur við sögu Rory, en dæturnar tvær lenda í mestu geðveikinni.
Frank heldur í heiðri ákveðna fjölskylduhefð, sem á sér langa sögu. Hefðin er sú að ef, og þegar, móðirin deyr, þá þurfa dæturnar að sjá um að afla matar fyrir fjölskylduna, en þær eru ekki vissar hvort þær ráði við það einar. Stormur skellur á litla bæinn þar sem þau búa og ekki líður á löngu þar til mannabein koma í ljós, og þá fer leyndarmál fjölskyldunnar að koma í ljós.
Aðrir leikarar eru m.a. Odeya Rush, Michael Parks, Nick Damici og Wyatt Russell.
Myndin fer í almennar sýningar í Bandaríkjunum 27. september nk.