Frumsýning: Paranoia

Sambíóin frumsýna fléttutryllinn Paranoia á næsta föstudag, þann 13. september. Með aðalhlutverk fer ungstirnið Liam Hemsworth og leikur þar á móti ekki minni spámönnum en Harrison Ford og Gary Oldman.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Paranoia er gerð af leikstjóranum Robert Lucetic (21, The Ugly Truth) eftir handriti þeirra Barrys Levy og Jasons Dean Hall, sem byggt er á samnefndri metsölubók Josephs Finder. Þetta er sannkölluð fléttumynd um leik kattanna að músinni sem neyðist til að snúast til varnar gegn ofureflinu, eins og segir í frétt frá Sambíóunum.

paranoiaLiam Hemsworth leikur hér ungan mann, Adam Cassidy, sem hefur mikla hæfileika á tæknilega sviðinu en vantar tækifæri og peninga til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

Dag einn hleypur á snærið hjá honum þegar honum er boðin vinna hjá öflugu hátæknifyrirtæki í eigu Nicholas Wyatt sem Gary Oldman leikur. En glansinn fer af starfinu þegar í ljós kemur að hinn siðspillti Nicholas vill að Adam gerist njósnari sinn hjá samkeppnisfyrirtæki sem rekið er af hinum snjalla viðskipta- og uppfinningamanni Jock Goddard (Harrison Ford).

Í fyrstu vill Adam ekkert með þetta hafa, enda um kolólöglegar iðnaðarnjósnir að ræða sem gætu landað honum í fangelsi til fjölda ára ef upp um þær kæmist. En peningarnir heilla og svo fer að Adam ákveður að láta vaða en er innan skamms kominn í mestu vandræði lífs síns …

paranoia (1)

Aðalhlutverk: Liam Hemsworth, Gary Oldman, Harrison Ford, Amber Heard, Richard Dreyfuss, Embeth Davidtz og Josh Holloway

Leikstjórn: Robert Lucetic

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Leikkonan Amber Heard sem leikur stórt hlutverk í Paranoia lék aðalkvenhlutverkið í The Rum Diary þar sem hún lék á móti núverandi unnusta sínum, Johnny Depp.