Hobbiti nálgast milljarðinn – Kínverjar flykkjast í bíó

The Hobbit: An Unexpected Journey nýtur mikillvar velgengni í Kína, en myndin var frumsýnd þar um helgina og þénaði jafnvirði 17,8 milljóna Bandaríkjadala á frumsýningarhelginni, samkvæmt upplýsingum frá dreifingaraðila myndarinnar, Warner Bros.

Þetta þýðir að myndin er nú á mörkum þess að brjóta eins milljarðs dollara múrinn í tekjum á heimsvísu.

Að þessum tekjum meðtöldum þá þénaði myndin samanlagt 18,6 milljónir dala á 44 sýningarsvæðum í heiminum sem þýðir að myndin hefur þénað 679 milljónir dala utan Bandaríkjanna og 300,9 milljónir í Bandaríkjunum. Samanlagt gera þetta því litlar 980 milljónir dala.

Tekjuhæsta myndin utan Bandaríkjanna um helgina var hins vegar A Good Day to Die Hard, nýjasta Die Hard myndin, sem hefur fengið vægast sagt misjafnar viðtökur gagnrýnenda.

Samanlagt hefur myndin nú þénað 133 milljónir dala utan Bandaríkjanna.

Söngvamyndin Les Miserables er komin upp í 394,9 milljónir dollara í alþjóðlegar tekjur og er orðin tekjuhæsta mynd Working Title framleiðslufyrirtækisins frá upphafi, en hún hefur nú siglt fram úr rómantísku gamanmyndinni Notting Hill frá Working Title, sem þénaði 374 milljónir dala á sínum tíma.