Kína fer fram úr Bandaríkjunum árið 2020

Bíóaðsókn í Kína verður orðin meiri en í Bandaríkjunum fyrir árið 2020, samkvæmt nýrri úttekt ráðgjafafyrirtækisins Ernst & Young. 

Kína er í dag annar stærsti markaður í heimi fyrir bíómyndir utan Bandaríkjanna, á eftir Japan.

Kínverski markaðurinn stækkar hraðar en áður hafði verið búist við, sem skapar ótal sóknarfæri fyrir fjárfestingu í afþreyingariðnaðinum, að því er fram kemur í frétt vefmiðilsins TheWrap.

Kínverjar eyddu 56% meira í skemmtun og afþreyingu á milli áranna 2010 og 2011.

Á síðasta ári jukust tekjur af miðasölu í kvikmyndahús um 35% upp í 2 milljarða Bandaríkjadala.

Til samanburðar þá námu tekjur af bíóaðsókn í Bandaríkjunum og Kanada 10,2 milljörðum dala árið 2011.