Transformers á toppnum – milljarður dala í kassanum

Transformers bíómyndir stórmyndaleikstjórans Michael Bay virðast ekki geta klikkað í miðasölunni, og nú er svo komið að nýjasta myndin, Transformers: Age of Extinction, er komin yfir milljarðs dollara markið í tekjum af sýningum á heimsvísu.

hr-transformers--age-of-extinction-17-michael-bay-103993

Myndin er þar með orðin tekjuhæsta bíómynd ársins til þessa, en myndin hefur þénað 241,2 milljónir dala í Bandaríkjunum og 763,8 milljónir dala utan Bandaríkjanna.

Það er gaman að segja frá því líka að myndin hefur þénað meira í Kína en í Bandaríkjunum, en meira en 250 milljónir dala hafa komið inn í aðgangseyri í þessu fjölmennasta landi í heimi.

Myndin sem er sú næst aðsóknarmesta á alheimsvísu þessa stundina er X-Men: Days of Future Past með tekjur upp á 739,9 milljónir dala. Hin stórgóða Maleficent er í þriðja sæti með 717,6 milljónir dala og Captain America: The Winter Soldier og The Amazing Spider-Man 2 koma í fjórða og fimmta sætinu með 713,2 milljónir dala og 707,8 milljónir dala, í þessari röð.