Hugsanlegur handritshöfundur kominn fyrir Blade Runner 2

Framleiðsla á nýrri Blade Runner mynd hófst í mars síðastliðnum og fimm mánuðum síðar tilkynnti leikstjóri fyrstu myndarinnar, Ridley Scott, að hann myndi einnig leikstýra nýju myndinni; en hingað til er ekki enn vitað hvort hún verði framhald eða ‘prequel’. Nú virðist hins vegar sem að það sé kominn handritshöfundur fyrir hana og það er ekki David Webb Peoples, sem skrifaði fyrstu myndina út frá bók Philip K. Dicks, heldur handritshöfundur hinnar nýju Contagion, Scott Z. Burns.

Bæði Ridley Scott og Warner Bros. vilja fá Burns til að skrifa myndina, en þetta yrði þá í fyrsta skiptið sem að hann og Scott myndu vinna saman. Hans helsti félagi er búinn að vera leikstjórinn Steven Soderbergh þar sem þeir hafa unnið saman að myndunum The Informant!, Contagion og hinni væntanlegu The Man from U.N.C.L.E.

Blade Runner er ein af mínum allra uppáhalds myndum og persónulega óttast ég ekki um þá nýju í höndum Burns, en maður spyr sig þó afhverju David Peoples var ekki fenginn aftur í verkið. Tökur munu hefjast í fyrsta lagi árið 2013.