Nýja Blade Runner verður framhald

Ridley Scott hefur heldur betur verið að snúa sér aftur að rótum sínum undanfarið, en tökum er lokið á Alien-tengdu myndinni Prometheus sem fóru einmitt að hluta til fram við Dettifoss. Sú mynd er væntanleg næsta sumar, og er búist við því að næsta mynd sem Scott snúi sér að verði Blade Runner 2. Áður vissum við ekki hvort sú mynd ætti að gerast á eftir eða undan upprunalegu Blade Runner myndinni, nú segir Scott að hún verði líklega framhald.

Þróun framhaldsins hefur verið áhugaverð. Allt frá því að Alcon Entertainment nældi sér í réttinn á því að gera myndir tengdar Blade Runner heiminum hafa þeir sagst vilja virða upprunalegu myndina og skapa verðugar viðbætur við söguna, og sömuleiðis hafa aðdáendur efast um gildi þessara yfirlýsinga og bent á að mesta virðingin sem hægt væri að sýna upprunalegu myndinni væri að láta hana vera. Markmið fyrirtækisins var alltaf að ná í virtan leikstjóra sem fólk myndi hafa trú á, og nefndu Christopher Nolan í því samhengi. Eftir að stóru fréttirnar um að Ridley Scott hefði samið við framleiðendurna um að taka að sér myndina, hefur fólk velt vöngum yfir því hvaða stefnu hún muni taka, og hvort Scott muni nokkurntíman geta toppað sjálfan sig.

Í viðtalinu sagði Scott að aðdáendur ætti ekki að þurfa að bíða svo lengi eftir myndinni. „Ég er nálægt því að finna handritshöfund sem getur hjálpað mér að skila þessu – við erum reyndar langt komin með þetta.“ En eigum við von á því að sjá Deckard (Harrison Ford) fyrst að þetta er framhald? „Nei, eiginlega ekki“ segir Scott.