Húmor og raunsæi í örlátri lengd

Er það einhvers staðar neglt niður í samningnum þegar Judd Apatow býr til bíómyndir að þær verði stöðugt að vera korteri til tuttugu mínútum lengri heldur en þær þurfa að vera? Án þess að gera lítið úr þeim merka manni og þeim ómetanlegu áhrifum sem hann hefur haft á dramatískar gamanmyndir (og gamansamar dramamyndir) þá get ég hugsanlega talið upp svona þrjár myndir (af svona 20) eftir hann sem hafa ekki gengið aðeins yfir strikið í óþörfum spunasenum eða uppfyllingum sem ættu frekar heima í dásamlegri vídeóhrúgu sem nefnist „Deleted scenes.“ Ég væri svo innilega til í að The Five-Year Engagement yrði undantekning í þessum málum, en hún er það svo sannarlega ekki. Hún er reyndar fínasta afþreying með meiru en hugsanlega á meðal slökustu Apatow-afkvæma undanfarna ára.

Í dágóðan tíma líður manni eins og það sé óttalega ferskur keimur á sögunni, enda hefst hún á þeim stað þar sem flestar hefðbundnar rómantískar gamanmyndir enda oftast. Þær eru yfirleitt ekkert gefnar fyrir það mikið að sýna hvað gerist eftir bónorðið (nema þær snúist alfarið í kringum brúðkaup), en hugmyndin að nálgast þekktan efnivið frá öðru sjónarhorni finnst mér ávallt vera vel þegin. Því miður kemur það smátt og smátt í ljós að þessi mynd hefur einungis smáhugmynd um hvert hún vill fara en veit ekkert hvernig á að komast þangað og þess vegna byrjar hún að sækja oftar í klisjurnar því lengra sem á hana líður.

Formúlurnar koma nánast allar beint af lagernum og alveg sama hvað myndin reynir að blekkja mann mikið, þá er gríðarlega augljóst hvernig hún mun enda, og biðin eftir þeim endi jaðar við það að vera átakanleg. Þegar maður byrjar almennilega að finna fyrir því hversu mikið er teygt úr innihaldinu fer maður hér um bil að iða í sætinu í seinni hlutanum vegna þess að myndin hefur enga ástæðu til þess að vera rúmir tveir tímar að lengd. Þetta er bara gamall ávani hjá leikstjóranum og framleiðandanum.

Þessi mynd gengur á mjög brothættu svæði hvað tón varðar, svona næstum því eins og einhver myndi ákveða að gera blöndu af Blue Valentine og Bridesmaids. Það rýkir heilmikil svartsýni í handritinu og gengur sagan mestmegnis út á það að sýna hvernig hin krúttlegustu sambönd geta auðveldlega molnað niður um leið og erfiðar, hversdagslegar ákvarðanir koma upp á borðið. The Five-Year Engagement er í rauninni eins og raunsæ sambandsdæmisaga sem sýnir hvað getur gerst ef báðir aðilar þróast ekki á sama hraða, eða vinnan fer með þá í (bókstaflega) sitthvoru áttina. Skiljanlega getur hún á tíðum verið ofsalega niðurdrepandi, en niðurdrepandi yrði ásættanlegt ef myndin væri ekki að reyna að vera ofsalega fyndin með reglulegu tímabili, og ég undirstrika það að myndin rembist oft stíft til að framkalla hlátur úr áhorfendum. Stundum virkar það en á köflum er tímasetningin svo glötuð að húmorinn verður kominn langt framhjá því stigi að vera vandræðalegur.

Nicholas Stollerhefur hingað til verið í miklu uppáhaldi hjá mér, a.m.k. í þessum geira, og hann á að geta miklu betur en þetta, svo ekki sé talað um þegar Jason Segel er í nálægð. Þeir félagar gerðu t.d. dæmis Forgetting Sarah Marshall, þar sem Stoller leikstýrði Segel og frumsamda handriti hans. Sú mynd var mjög fyndin, mjög dúlluleg og skemmtileg alla leið fyrir utan örlátu lengdina. Stuttu síðar skrifaði Stoller og leikstýrði Get Him to the Greek, sem var einnig mjög fyndin, pínu langdregin en samt nokkuð hjartahlý. Síðan sameinast drengirnir aftur og gáfu okkur The Muppets, sem bara hinir hörðustu fýlupúkar geta ekki fílað. Svo koma þeir núna saman með nýja mynd sem þeir tveir skrifuðu báðir, og hún er ekkert voðalega fyndin þótt hún eigi sín móment. Mér líður eins og drengirnir ætluðu sér að skrifa hreinræktað drama en smám saman ákveðið að pota bröndurum inn í hinar einkennilegustu senur.

Glaðlyndi, kómíski Hollywood-andinn passar alls ekki alltaf við restina af myndinni og í seinni helmingnnum verður hún svo upptekin við það að vera köld og raunsæ að endirinn passar varla við hana. En á jákvæðu nótunum er myndin nokkuð snjöll á blaði, þýðingarmikil, einlæg og skemmtileg þegar maður kemst yfir það hvað hún flæðir asnalega. Segel sýnir hlutverki sínu bæði áhuga og umhyggju og það vantar ekki tilfinninguna að hann og Emily Blunt eigi alveg heima saman á hvíta tjaldinu. Þau eru hugguleg og sterk í samspili og ef leikstjórinn hefði sótt skærin oftar hefði kemistría þeirra örugglega getað bætt upp fyrir aðra galla. Aukaleikararnir eru einnig flestir nokkuð frábærir, nema í stefnulausum senum. Þá tefja þeir bara. Annars þokkaleg mynd fyrir pörin. Ekki beinlínis góð deitmynd, en fín vekjaraklukka fyrir þá sem hafa verið lengi saman.


(6/10)