Johnson í lausu lofti

Hversu langt mun Dwayne Johnson ganga, í nýjustu mynd sinni Skyscraper, til að tryggja öryggi fjölskyldunnar? Líklega fram á ystu nöf.

Það má amk. lesa út úr glænýju plakati fyrir myndina, en þar sjáum við hetjuna í lausu lofti að því er virðist, að stökkva af byggingarkrana og yfir í opinn glugga á skýjakljúf.

Í Skyscraper, sem er bæði leikstýrt af Rawson Marshall Thurber sem einnig skrifar handritið, leikur Dwayne Johnson fyrrum gíslabjörgunarmann hjá alríkislögreglunni FBI, og stríðshetju, Will Sawyer, sem sérhæfir sig í öryggisgæslu í skýjakljúfum.

Þar sem hann er að vinna að verkefni í Kína, þá kviknar eldur í stærstu og öruggustu byggingu í heimi, og honum er kennt um verknaðinn. Nú er hann eftirlýstur og á flótta, og þarf að finna þá sem ábyrgir eru fyrir verknaðinum, hreinsa nafn sitt og bjarga fjölskyldunni, sem er föst inni í byggingunni.

Myndin verður frumsýnd í þrívídd þann 13. júlí nk. Aðrir helstu leikarar eru Neve Campbell, Chin Han, Noah Taylor, Roland Møller, Byron Mann, Pablo Schreiber og Hannah Quinlivan.

Kíktu á plakatið hér fyrir neðan og kitlu þar fyrir neðan: