Jóker Letos fær sérstaka kvikmynd

Kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros. hefur áhuga á að gera sérstaka kvikmynd sem byggð verður á þorparanum Jóker sem Jared Leto lék í and-ofurhetjukvikmyndinni Suicide Squad, árið 2016.

Heimildir Variety kvikmyndaritsins segja að Leto sér klár í slaginn, en myndin gæti orðið sú fyrsta af mörgum sem spunnar verða út frá Suicide Squad.

Söguþráður er enn á huldu, en hugmyndin er að gera sér mat úr heiminum sem búinn var til í Suicide Squad. Warner Bros. hefur nú þegar gefið út að persónan Harley Quinn, sem Margot Robbie lék í myndinni, muni fá sína eigin kvikmynd sömuleiðis.

Mörgum fannst Jókerinn sem Leto lék í Suicide Squad ekki fá nægt sviðsljós, og hefði verið meira eins og gestahlutverk á sterum. Óskarsverðlaunahafinn Leto gaf það skýrt í skyn í kjölfar frumsýningar myndarinnar að hann vonaðist til að persónan fengi að birtast í fleiri kvikmyndum í framtíðinni.

Allt er enn óvíst um hvenær tökur hefjast á myndinni, en Leto og kvikmyndaverið leita nú að handritshöfundi.

Einnig er óvíst hvort að myndin verði tekin á undan eða eftir framhaldinu af Suicide Squad sem nú þegar er búið að tilkynna um framleiðslu á árið 2019.

Við sáum Leto síðast í Blade Runner: 2049 og The Outsider á Netflix.