Kvikmyndir sem viðkvæmir ættu að forðast

Að vera viðkvæmur fyrir andstyggilegum og viðbjóðslegum atriðum í kvikmyndum getur oft reynst erfitt. Það getur nefnilega verið mjög vandræðalegt að halda fyrir augun í smekkfullu kvikmyndahúsi og eiga svo erfitt með svefn næstu næturnar… eða svo hefur undirritaður heyrt talað um.

Til þess að skilgreina það sem viðkvæmir forðast fyrir þá sem horfa á viðbjóð í rólegheitum þá þarf að kafa dýpra inn í huga þeirra. Sama þótt að sá viðkvæmi telji sér trú um að blóðið sé bara tómatssósa og að leikararnir fái sér samlokur og spjalli saman í hléum þá getur hann samt með engu móti horft á blóðugt atriði til enda. Andstyggileg morð og pyntingar eru ekki í uppáhaldi hjá þeim viðkvæmu. Blóð, líkamsleifar, saur, krufningar og bregðuatriði eru ekki á óskalista og lengi mætti telja.

Til eru kvikmyndir sem jaðra á við verstu martröð. Sumar eru það viðbjóðslegar eða ógnvekjandi að þær hafa verið bannaðar af yfirvöldum og valdið áhorfendum miklum óþægindum. Hér að neðan má sjá lista yfir sjö kvikmyndir sem viðkvæmir ættu að forðast svo lengi sem þeir lifa.

1. A Serbian Film (2010)

serbian

Milos er fyrrverandi klámstjarna og var hann sá besti í bransanum. Einn dag er hann boðaður á fund Vukmir, geðbiluðum leikstjóra sem býður honum himinháa upphæð gegn því að Milos gegni öllum fyrirmælum hans og leiki í einni lokamynd. Atriðin í myndinni eru að mörgum talin sjúkleg. Kona er kæfð með getnaðarlim og önnur er hálshöggvin í miðjum klíðum og önnur atriði sem viðkvæmir gætu ekki einu sinni lesið um. Myndin er bönnuð í Nýja Sjálandi, Spáni, Brasilíu og nokkrum öðrum löndum.

2. Cannibal Holocaust (1980)

cannibal

Viðkvæmir ættu að kannast við þessa mynd enda hafa þeir forðast hana eins og heitan eldinn í mörg ár. Myndin segir frá leiðangri nokkurra kvikmyndagerðamanna til Suður-Ameríku þar sem hugmyndin er að gera heimildarmynd um ættbálka í frumskóginum. Þegar kvikmyndagerðamennirnir skila sér ekki heim er farið að grennslast fyrir um þá og ekkert finnst nema filmubútar úr leiðangrinum. Þessar filmur hafa að geyma vægast sagt óhugnalega hluti.

3. The Human Centipede (2010)

human

Ef við vilt ekki sjá saur, pyntingar eða hreinræktaða illsku þá mælum við ekki með þessari mynd. Tvær bandarískar stúlkur eru fangelsaðar ásamt japönskum manni í óhugnalegum kjallara sem hefur verið útbúinn eins og bráðabirgðaspítali. Fangari þeirra tjáir þeim að hann sé skurðlæknir og hafi sérhæft sig í aðskilnaði síamstvíbura áður en hann hætti störfum. Aftur á móti er það ekki ætlun hans að aðskilja fangana heldur sameina þá. Hann ætlar sér að verða fyrsti maðurinn til þess að tengja manneskjur saman um meltingarkerfin þeirra. Þannig munu sjúkir órar hans um mennska margfætlu verða að veruleika.

4. Antichrist (2009)

antichrist

Lars Von Trier er með fjörugt ímyndunarafl og hérna sýnir hann sínar óhugnalegustu hugsanir. Par missir son sinn er hann dettur út um glugga á meðan þau stunda kynlíf í næsta herbergi. Móðirin endar á spítala vegna sorgar sinnar, en eiginmaðurinn fer með hana heim og hyggst kljást við þunglyndi hennar upp á eigin spýtur, enda sálfræðingur sjálfur. Til að horfast í augu við ótta eiginkonunnar, koma þau sér fyrir í kofa út í skóginum Eden þar sem eitthvað óútskýrt gerðist sumarið áður. Maðurinn og konan afhjúpa dimmu hliðar náttúrunnar, fyrir utan kofann og innra með þeim í ýmsum lostafullum og grimmum athöfnum.

5. The Hills Have Eyes (2009)

hills

Myndin fjallar í stuttu máli um venjulega fjölskyldu sem eru á leiðinni til Kaliforníu að halda upp á brúðkaupsafmæli foreldranna. Þau ákveða að keyra, og á leiðinni eru þau leidd í gildru, af stökkbreyttu fólki sem kom illa út úr kjarnorku-æfingum yfirvalda Bandaríkjanna. Ógnvekjandi ræma frá upphafi til enda sem sýnir verstu hliðar manneskjunnar.

6. Dogtooth (2009)

dogtooth

Dogtooth fjallar um mjög óvenjulegar uppeldisaðferðir foreldra. Þau loka þrjú börnin sín, tvær stúlkur og einn dreng, frá umheiminum og skapa eigin veröld innan hússins og garðsins þar í kring. Unga fólkið fær aldrei að fara út fyrir mörk hússins og eina manneskjan sem þau hitta er ung kona sem foreldrarnir hafa fengið til að fullnægja kynferðisþörfum sonarins. Þessi mynd er afar sérstök, hún sýnir á óhugnanlegan hátt hvernig ótti og umhyggja foreldra gagnvart börnum sínum snýst upp í andhverfu sína þegar einangrun, ímyndaður veruleiki, kúgun og niðurlæging stýrir gjörðum þeirra.

7. I Spit On Your Grave (1978)

i-spit-on-your-grave-camille-keaton-2

Kona leigir sér sumarbústað til að skrifa sína fyrstu skáldsögu. Nokkrir sveitalubbar virðist þó ekki vera sáttir með að hún sé í nágrenni þeirra og ráðast á hana og hópnauðga henni. Atriðið er mjög átakanlegt og endist í tæpar 20. mínútur. Konan nær þó hefndum á sveitalubbunum og pyntar og drepur þá hvern á fætur öðrum. Myndin var bönnuð á Íslandi á sínum tíma.