Channing Tatum hefur samþykkt að leika aðalhlutverkið í Gambit, nýrri hliðarmynd X-Men, samkvæmt heimildum The Hollywood Reporter.
Talið var að Tatum hefði hætt við að leika í myndinni vegna þess að hann hafi ekki komist að samkomulagi við kvikmyndaverið 20th Cenutury Fox og koma tíðindin því nokkuð á óvart.
Magic Mike-leikarinn, sem heimsótti Ísland fyrr á árinu, hefur lengi verið orðaður við hlutverkið og kom hann óvænt fram á viðburði sem framleiðendur X-Men stóðu fyrir á ráðstefnunni Comic Con í júlí.
Fox líta á hinn stökkbreytta Gambit sem eina af lykilpersónunum í veröld X-Men, svipaða og Wolverine. Persónu sem getur haldið uppi eigin kvikmyndum og einnig verið í aukahlutverki í öðrum myndum.
Svo gæti því farið að Tatum verði í hlutverki Gambit næstu tíu til fimmtán árin, líkt og Hugh Jackman sem hefur leikið Wolverine frá árinu 2000.
Leikstjóri Gambit verður Rupert Wyatt, sem leikstýrði Rise of the Planet of the Apes.