Lengsta Bond-mynd sögunnar í vændum

Bíógestir og ekki síður Bond-unnendur mega búast við þokkalega langri setu næstkomandi apríl, en nýjasta kvikmyndin um njósnara hennar hátignar, sem ber heitið No Time to Die, verður lengsta Bond-myndin sem gerð hefur verið til þessa. Segja heimildir að lokaútgáfa myndarinnar sé fullkláruð og sé 163 mínútur að lengd, eða tveir klukkutímar og 43 mínútur.

Um er að ræða 25. myndina í seríunni um James Bond og verður heildarlengdin um korteri lengri heldur en síðasta mynd syrpunnar, Spectre, sem á þeim tíma hélt metið í lengdinni. Til samanburðar voru Casino Royale og Skyfall um 141 og 144 mínútur að lengd. Á milli þessara tveggja mynda kom út Quantum of Solace, sem er bæði ein umdeildasta mynd seríunnar um njósnarann og jafnframt sú allra stysta.

Daniel Craig fer með hlutverk Bonds fimmta og síðasta sinn. Í myndinni mun Bond snúa aftur eftir að hafa lagt byssuna á hilluna og sest í helgan stein, en endurkoman fylgir í kjölfarið á því þegar Felix Leiter, gamall kollegi síns hjá CIA leyniþjónustunni, kallar eftir aðstoð hans.

Fleiri kunnugleg snúa aftur ásamt þónokkrum nýjum, en á sínum stað verða þau Ralph Fiennes (M), Naomie Harris (Moneypenny), Ben Whishaw (Q), Christoph Waltz (Blofeld), Jeffrey Wright (Leiter) og Léa Seydoux (Madeleine Swann). Auk þeirra eru Billy Magnussen, Ana de Armas og Rami Malek, sem vann til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í myndinni Bohemian Rhapsody bregður sér í hlutverk skúrksins í myndinni.

Það er leikstjórinn Cary Fukunaga sem situr við stjórnvölinn en hann er þekktastur fyrir kvikmyndina Beasts of No Nation (2015) ásamt fyrstu seríu True Detective, sem margir hverjir héldu ekki vatni yfir.

Hér að neðan má heyra titillag myndarinnar, sem afhjúpað var nú á dögunum og er í flutningi Billie Eilish, en má þess geta að hún er yngsti tónlistarmaðurinn sem hefur hlotið það verkefni að semja Bond-lag.

No Time to Die verður frumsýnd þann 8. apríl á Íslandi.