Loch Ness skrímslið boðar komu sína á hvíta tjaldið

Það er veisla framundan næstu árin fyrir aðdáendur skrímslamynda. Universal hleypti af stokkunum skrímslaseríu sinni Dark Universe með frumsýningu The Mummy, sem er núna í bíó, og Legendary framleiðslufyrirtækið er með MonsterVerse í undirbúningi, en þar sjáum við risaapann King Kong berjast við japanska kjarnorkuskrímslið Godzilla árið 2020.

Nú berast fregnir af enn einni myndinni úr þessari átt, mynd um sjálfa Nessie, eða Loch Ness skrímslið skoska, en gera á mynd um það eftir skáldsögunni The Loch.

Höfundur The Loch, Steven Alten, ræddi nýverið við vefsíðuna Bloody Disgusting og sagði í því viðtali að bókin  væri á leið upp á hvíta tjaldið. Framleiðandinnn Belle Avery, sem vinnur með Alten að risahákarlamyndinni Meg, einnig eftir sögu Alten, vinnur að sögn með kínverskum framleiðendum að undirbúningi The Loch.

Meg, sem er með Jason Statham í hlutverki manns sem berst gegn risahákarli, er væntanleg í bíó 10. ágúst 2018.

Söguþráður The Loch er eitthvað á þessa leið, sem gefur ákveðin fyrirheit um efnistök myndarinnar:

Sjávarlíffræðingurinn Zachary Wallave drukknaði næstum því í Loch Ness vatninu, og núna hafa minningar tengdar þeirri lífsreynslu skotið upp kollinum á nýjan leik. Minningarnar tengjast föður hans sem hann hefur lítið haft af að segja lengi, Hálendingnum Angus Wallace, sem er nú fyrir rétti, ákærður fyrir morð. Núna sogast þeir inn í heim þar sem goðsögnin um Loch Ness sýnir sitt rétta andlit.