Marlon Brando í tómu tjóni

Megrunargúrúið Marlon Brando hefur lent í miklum útistöðum við leikstjórann Frank Oz ( Bowfinger ) sem best er þekktur sem röddin á bak við Yoda og Miss Piggy. Þeir eru báðir að vinna að nýrri mynd sem heitir The Score, og við tökur hefur Brando neitað að mæta á svæðið ef Oz er viðstaddur því hann þolir hann ekki. Þetta hefur leitt til þess að Oz lætur skilaboð og leikstjórn ganga til aðstoðarleikstjórans sem lætur þau ganga til Robert De Niro sem einnig leikur í myndinni og er eini maðurinn sem Brando hlustar á. Til að bæta gráu ofan á svart kallaði Brando hann Miss Piggy, og verður að segjast eins og er að það kemur úr hörðustu átt. Hinn ofverndaði Brando mætti fara að hugsa sinn gang eftir þær furðufréttir sem maður hefur haft af honum undanfarin ár.