McConaughey og Harrelson bestir síðan 2010

Lögguþátturinn True Detective var frumsýndur með látum á HBO kapalsjónvarpsstöðinni bandarísku nú í vikunni. 2,3 milljón áhorfendur sáu fyrsta þáttinn sem þýðir að um er að ræða bestu frumsýningu sjónvarpsþáttar á sjónvarpsstöðinni síðan fyrsti þáttur Boardwalk Empire laðaði 4,8 milljón áhorfendur að viðtækjunum árið 2010.

matthew woody

Á meðal sjónvarpsþátta sem True Detective skaut þar með ref fyrir rass eru þættir eins og Game of Thrones (2,22 milljónir áhorfenda sáu fyrsta þáttinn) og The Newsroom (2,14 milljónir áhorfenda sáu fyrsta þáttinn).

Til viðbótar þá horfðu ein milljón manns til viðbótar á True Detective þegar hann var endursýndur tveimur tímum eftir frumsýninguna sem þýðir að allt í allt sáu 3,3 milljónir manns þáttinn sl. sunnudag samkvæmt Nielsen mælingarfyrirtækinu.

Í aðalhlutverkum í True Detective eru stórstjörnurnar Matthew McConaughey og Woody Harrelson. Þeir leika tvo rannsóknarlögreglumenn í morðdeild lögreglunnar í Louisiana í Bandaríkjunum, sem leita raðmorðingja. Fyrsta sería þáttanna samanstendur af átta þáttum.